[sam_zone id=1]

Frábær leikur gegn sterkum Svartfellingum

Íslenska karlalandsliðið lék í dag fyrri leik sinn gegn Svartfjallalandi í undankeppni EM. Leikurinn fór fram í bænum Bar í Svartfjallalandi.

 

Íslensku strákarnir hafa átt í vandræðum með að byrja leiki af krafti í síðustu leikjum og var áhersla lögð á að byrja vel og reyna að halda í við heimamenn. Þetta gekk vel og var staðan 5-5 í upphafi fyrstu hrinu. Lið Svartfellinga er hins vegar ógnarsterkt og þeir gáfu í eftir þessa byrjun. Munurinn varð fljótt mikill og íslenska liðið elti, þrátt fyrir fína spilamennsku. Fyrstu hrinunni lauk með 25-15 sigri heimamanna en spilamennska Íslands lofaði góðu.

Önnur hrina var enn betri en sú fyrsta hjá Íslandi. Forysta Íslands var mest 3 stig í hrinunni þegar liðið komst 8-11 yfir en þá bættu Svartfellingar í uppgjafir sínar. Það dugði til að sigra hrinuna 25-20 en hrinan var klárlega sú besta hjá íslenska liðinu hingað til. Þriðja hrina gekk einnig vel en henni lauk 25-15, eins og þeirri fyrstu. Flottur leikur hjá drengjunum og vonandi að þeir sýni þetta næstkomandi sunnudag þegar Svartfellingar koma í heimsókn í Digranesið. Sá leikur hefst klukkan 18.

Byrjunarlið Íslands í dag var eftirfarandi :

Máni Matthíasson í uppspili, Alexander Arnar Þórisson og Lúðvík Már Matthíasson á köntunum, Kristján og Hafsteinn Valdimarssynir á miðjunni, Andreas Hilmir Halldórsson í díó og Valþór Ingi Karlsson var frelsingi. Arnar Birkir Björnsson kom inn á til að styrkja móttökuna í öllum þremur hrinunum en aðrir leikmenn Íslands komu ekki við sögu í þessum leik. Andreas var stigahæstur Íslendinga með 7 stig og Alexander bætti við 6 stigum.

Bjarki Benediktsson var í fyrsta skipti í leikmannahópi Íslands í keppnisleik og fær hann fyrir það bronsmerki BLÍ. Við óskum Bjarka til hamingju með áfangann.

(Myndir fengnar af heimasíðu CEV)