[sam_zone id=1]

Strákarnir öflugir í seinni leik sínum gegn Raision Loimu

Íslenska karlalandsliðið lék í dag seinni æfingaleik sinn gegn Raision Loimu í Finnlandi. Liðið tapaði 3-1 en stóð sig vel.

 

Fyrri leikurinn fór fram í gær þar sem að Loimu sigraði nokkuð örugglega 4-0 en spiluð var ein aukahrina eftir að Loimu sigraði leikinn 3-0. Þjálfaraskipti urðu fyrir leikinn í dag þar sem að Christophe Achten stýrði félagsliði sínu, Loimu, en Massimo Pistoia stýrði liði Íslands. Byrjunarlið leiksins var það sama og í gær með Mána í uppspilinu, Alexander díó, Lúðvík og Felix kantmenn, Kristján og Hafsteinn á miðjunni og Ragnar frelsingi. Fyrsta hrinan var nokkuð jöfn en Loimu sigraði hana þó þægilega, 25-18. Stefán Gunnar kom einnig mikið við sögu í fyrstu, annarri og fjórðu hrinu í dag.

Önnur hrinan var sú langbesta hjá liðinu í þessum tveimur leikjum. Góðar uppgjafir og samvinna hjá liðinu sáu til þess að það leiddi alla hrinuna og sigraði hana að lokum 17-25. Galdur Máni kom inn á í lok hrinunnar og tryggði sigurinn með ás úr uppgjöf. Því miður náðu strákarnir ekki að fylgja þessu eftir í þriðju hrinunni og töpuðu henni 25-13. Fjórða hrinan var frábær skemmtun og hnífjöfn allan tímann. Ísland leiddi 21-19 en heimamenn jöfnuðu fljótt. Að lokum sigruðu Loimu hrinuna 27-25 og tryggðu sér 3-1 sigur í leiknum.

Allir leikmenn íslenska liðsins fengu að spreyta sig í leiknum í dag en Valens Torfi kom inn á sem kansmassari í þriðju hrinu og Arnar Birkir lék sem frelsingi í annarri og fjórðu hrinu.

Stigahæstur Íslendinganna í leiknum var Alexander Arnar með 19 stig og Lúðvík Már skoraði 10 stig. Á morgun verður slökun hjá liðinu og einungis verður tekin létt æfing um morguninn. Annars fá strákarnir að skoða sig um og njóta lífsins saman fyrir átökin í Slóvakíu. Liðið leggur eldsnemma af stað til Slóvakíu á þriðjudagsmorgun og verða mættir til borgarinnar Nitra um hádegisbil á staðartíma. Nitra er um 80 þúsund manna bær í Slóvakíu og þar fer leikurinn fram á miðvikudag.