[sam_zone id=1]

Annað tap hjá stelpunum gegn Noregi

Ísland og Noregur mættust í dag að öðru sinni um helgina í vináttuleik liðanna en leikirnir fóru fram í Osló.

Stelpurnar komu ekki næginlega vel gíraðar í leikinn í dag því að fyrsta hrina tapaðist stórt, 25-9. Erfiðlega gekk hjá stelpunum að komast í rétta gírinn en þær norsku voru töluvert öflugri í dag og áttu íslensku stelpurnar fá svör við leik norðmanna. Þrátt fyrir góða kafla inná milli þá var það enn og aftur móttaka liðsins sem varð þeim að falli, norðmenn skoruðu 20 stig beint úr uppgjöf í leiknum í dag. Norðmenn fóru með öruggan sigur í leiknum 3-0 (25-9, 25-14 og 25-16), spiluð var ein auka hrina og tapaðist hún 25-15.

Liðið hefur farið í gegnum töluverðar breytingar á síðustu mánuðum og eru aðeins 7 leikmenn eftir af þeim 14 sem urðu Evrópumeistarar smáþjóða síðasta sumar. Liðið er töluvert yngra en það hefur verið undanfarin ár og því skiljanlegt að það taki einhvern tíma að stilla liðið saman.

Fjórir nýliðar eru í hópnum í dag og eru tvær þeirra aðeins 16 ára gamlar.

Allir leikmenn liðsins komu við sögu í dag fyrir utan fyrirliðan Jónu Guðlaugu Vigfúsdóttir en hún er að koma til baka eftir meiðsli.

Stigahæst í liði Íslands í dag var Matthildur Einarsdóttir með 9 stig.