[sam_zone id=1]

Tap hjá körlunum í hörkuleik

Karlalandsliðið tapaði í dag gegn Raision Loimu í æfingaleik. Leikurinn byrjaði illa en framfarirnar komu fljótt fram.

 

Fjölmargir áhorfendur voru mættir til að fylgjast með liðunum og voru flestir mættir vel fyrir upphaf leiksins. Byrjunarlið Íslands samanstóð af Mána í uppspilinu, bræðurnir Hafsteinn og Kristján voru á miðjunni, Lúðvík og Felix kantmenn, Alexander Arnar í díó og Ragnar frelsingi. Fyrsta hrinan fór mjög illa þrátt fyrir ágætis baráttu hjá íslenska liðinu. Hrinunni lauk með 25-8 sigri heimamanna. Sama uppstilling var í annarri hrinunni og gekk töluvert betur. Íslenska liðið leiddi hrinuna mestan hluta hennar og Loimu tóku leikhlé í stöðunni 15-18, Íslandi í vil. Lokakaflinn var æsispennandi en Loimu seig fram úr og sigraði hrinuna 31-29.

Í þriðju hrinunni var enn sama uppstillingin en Stefán Gunnar kom mikið við sögu í öllum hrinunum þrátt fyrir að byrja þær á bekknum. Strákarnir náðu ekki að fylgja eftir góðu spili í annarri hrinunni en sú þriðja gekk þó ágætlega. Henni lauk með 25-11 sigri heimamanna þrátt fyrir fína spretti hjá íslenska liðinu. Galdur Máni fékk aðeins að spreyta sig í hrinunni. Ein aukahrina var spiluð þrátt fyrir að staðan væri 3-0 fyrir heimamönnum og ákvað þjálfarateymi Íslands að breyta til. Arnar Birkir lék sem frelsingi og uppspilarastaðan breyttist mikið. Lúðvík og Máni léku báðir sem uppspilarar og Alexander Arnar spilaði sem kantur. Valens Torfi kom einnig inn á í hrinunni. Loimu sigruðu fjórðu hrinuna einnig eftir jafnan leik, 25-21.

Alexander Arnar var stigahæstur Íslendinganna með 13 stig og Kristján Valdimarsson bætti við 11 stigum.

Alexander Arnar, Galdur Máni og Valens Torfi léku í dag í fyrsta sinn með A-landsliðinu þrátt fyrir að leikurinn hafi ekki verið formlegur landsleikur. Liðið leikur svo aftur gegn Loimu á morgun og hefst leikurinn kl. 13:00 á íslenskum tíma. Líklega verður Youtube-streymi frá leiknum og koma frekari upplýsingar um það síðar.