[sam_zone id=1]

Noregur hafði betur í vináttuleik í Osló

Kvennalandslið Íslands lék í dag vináttuleik gegn Noregi en leikið var í Osló.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Rósa Dögg Ægisdóttir í uppspili, Thelma Dögg Grétarsdóttir í díó, Unnur Árnadóttir og Sigdís Lind Sigurðardóttir á miðjunni, Matthildur Einarsdóttir og Hjördís Eiríksdóttir á kantinum og Steinunn Helga Björgólfsdóttir og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir skiptu með sér stöðu frelsingja.

Ísland byrjaði leikinn nokkuð vel og héldu stelpurnar vel í norska liðið sem eru fyrirfram talið sterkara. Undir miðja fyrstu hrinu fór hinsvegar að sjást munur á liðunum en íslensku stelpurnar gerðu töluvert af ódýrum mistökum. Þær norsku pressuðu vel í uppgjöfum og þá áttu stelpurnar einnig í vandræðum með að komast framhjá sterkri hávörn noregs. Ísland tapaði fyrstu hrinu 25-14.

Ísland mætti einbeittara til leiks í aðra hrinu og komst fljótt í 4-1 en Sara Ósk Stefánsdóttir mætti öflug í framlínu íslands og áttu norsku stelpurnar í vandræðum með að komast framhjá henni. Norska liðið náði hinsvegar hægt og rólega að ná niður forskoti Íslands og jafnaði í stöðunni 7-7. Stelpurnar héldu hinsvegar áfram að pressa og Noregur komst ekki yfir fyrr en í 16-15, en þá kom góður kafli hjá þeim norsku sem náðu að snúa hrinunni sér í hag og náðu að lokum sigri 25-20.

Þriðja hrina var hnífjöfn allt að stöðunni 10-10 en þá kom hrikalegur kafli hjá íslenska liðinu en þær norsku skoruðu þá 8 stig í röð og var ekki aftur litið en þriðja hrina tapaðist 25-16.

3-0 sigur Noregs því staðreynd en þrátt fyrir tapið þá var jákvætt að sjá 4 nýliða spila sinn fyrsta A landsleik en þær Líney Inga Guðmundsdóttir, Sara Ósk Stefánsdóttir, Sigdís Lind Sigurðardóttir og Valdis Kapitola Þorvarðardóttir
voru allar að spila sinn fyrsta landsleik fyrir A landsliðið. Allir leikmenn liðsins komu við sögu í leiknum.

Stigahæst í liði Íslands í leiknum var Hjördís Eiríksdóttir með 11 stig, næst á eftir henni kom Thelma Dögg Grétarsdóttir með 10 stig.

Ísland og Noregur mætast aftur á morgun á sama tíma.