[sam_zone id=1]

,,Ég vil sjá Digranesið fullt út úr dyrum”

Kvennalandslið Íslands í blaki heldur til Noregs í dag þar sem liðið mun spila æfingaleiki við norska landsliðið. Í framhaldi af því ferðast liðið til Belgíu þar sem fyrsti leikurinn í undankeppni EM fer fram, 15.ágúst.

Blakfréttir fengu fyrirliða liðsins, Jónu Guðlaugu Vigfúsdóttur, í spjall að lokinni 2.5 tíma langri æfingu í Fagralundi á dögunum. Hún segir að hópurinn sé tölvert breyttur frá fyrri árum en segir stemninguna vera góða. ,,Það eru auðvitað búnar að vera miklar breytingar að undanförnu og við kannski ekki verið að hugsa um réttu hlutina. En þetta er allt að koma. Ég finn bara mikinn mun í þessari viku,“ segir Jóna.

Liðið hefur verið á stífum æfingum í sumar sem Jónu finnst mjög jákvætt. ,,Það eru tvær nýjar í hópnum sem eru fæddar 2002 sem eru svakalega góðar. Ég er nokkuð viss um að þessar stífu æfingar í sumar hafi gert þeim rosalega gott. Þjálfararnir koma með ótrúlega góða orku í liðið. Það er rosalega mikil tilfinning í spænsku blaki sem passar vel við okkur.“

Jóna er mjög ánægð með þá ákvörðun BLÍ að skrá liðin til leiks í keppnina. ,,Þetta er eina leiðin fyrir íslenskt blak að komast áfram. Það þýðir ekki alltaf að spila á móti liðum sem eru í sama styrkleikaflokki, þá fer manni ekki fram. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að spila leiki þar sem maður hefur engu að tapa. Það er ekki til betri tilfinning.“

Íslenska liðið mun spila á móti Belgíu, Slóveníu og Ísrael í undankeppni EM. Jóna getur lítið spáð fyrir um úrslitin. ,,Ég hef ekki hugmynd. Aðalmarkmiðið okkar er kannski ekki að vinna þessar stórþjóðir í blaki, en það væri gaman að stríða þeim. Ég er alls ekki að segja að við getum ekki unnið, en við erum auðvitað ekki vanar að spila á móti liðum í þessum klassa. Sérstaklega á móti liði eins og Belgíu, það verður svakalega gaman.“

Í dag eru einungis 9 dagar í fyrstu heimaleiki liðanna sem verða spilaðir í Digranesi. ,,Þetta verður algjör veisla. Bara það að sjá þessi gæði er svo mikil gjöf fyrir fólk sem hefur áhuga á þessari íþrótt og líka fyrir fólk sem er ekkert endilega áhugafólk um blak. Ég get ekki lýst því hvað það er mikilvægt að fá fólk á þessa leiki, bæði fyrir okkur og bara íslenskt blak. Ég er allavega búin að tala við mína fjölskyldu og mun afneita þeim ef þau mæta ekki,“ segir fyrirliðinn og hlær. ,,Talið við alla sem þið þekkið, ég vil sjá Digranesið fullt út úr dyrum, það hlýtur að vera raunhæft markmið,“ segir Jóna að lokum.

mynd: A & R photos