[sam_zone id=1]

,,Á góðum degi getum við tekið þessi lið”

Blakfréttir mættu á æfingu hjá íslenska kvennalandsliðinu í gær til að spjalla við nýráðinn þjálfara liðsins, Borja Gonzalez Vicente, um komandi verkefni.

Kvennalandsliðið ferðast til Noregs á morgun þar sem liðið mun spila æfingaleiki við Noreg. Eftir það halda þær til Belgíu, þar sem þær munu spila fyrsta leik sinn í undankeppni EM á móti belgum, 15. ágúst, en belgíska liðið situr í 7. sæti evrópska styrkleikalistans.

Borja og Ana Maria voru ráðin sem þjálfarar um miðjan júlí og hafa því ekki verið nema nokkrar vikur með liðið, en eru ánægð með hvernig gengið hefur á æfingum. ,,Eftir örar þjálfarabreytingar höfum við lítið náð að skipuleggja æfingarnar að ráði. Mórallinn var dálítið niðri til að byrja með sem er skiljanlegt í kjölfar mikilla breytinga, en þetta er allt á uppleið núna,“ segir Borja.

Hópurinn er nokkuð breyttur frá fyrri árum, en þjálfarateyminu lýst vel á liðið. ,,Eins og staðan er í dag eru nokkrir leikmenn meiddir og síðan erum við með mjög unga leikmenn í hópnum sem eru fæddir 2002. Þetta er skemmtilegt lið. Þær skemmta sér á æfingum og eru góðar vinkonur. Fæstar þeirra eru atvinnumenn og ef þær skemmta sér ekki á æfingum, þá fyrst gætum við lent í vandræðum,“ segir Borja.

Borja segir þau Önu ekki hafa gert miklar breytingar á liðinu og leikkerfi, enda tíminn naumur, en aðaláherslan á æfingum er að ná góðri samhæfingu á milli leikmanna. ,,Við leggjum mikla áherslu á varnarvinnu. Við reynum að ná góðu jafnvægi á milli blokkar og varnar og leggjum áherslu á að vera í réttum stöðum á vellinum.”

Borja segist þekkja andstæðinga Íslands ágætlega. ,,Við höfum fylgst mikið með belgíska liðinu sem hefur spilað nokkra leiki við Spán að undanförnu. Ég á vini í þjálfarateymi spænka liðsins og hef fengið upplýsingar frá þeim. Belgíska liðið er sterkasta liðið í riðlinum, en Ísrael og Slóvenía eru í öðrum styrkleikaflokki og ekki svo langt frá okkur. Á góðum degi ættum við að geta tekið þau lið.“

Þjálfararnir telja gríðarlega mikilvægt að fá þessi stóru lið til landsins. ,,Við getum verið stolt af okkur að taka þátt í þessu móti. Ég held að það vanti svolítið í blakara á Íslandi að horfa mikið á blak í hæsta gæðaflokki. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir unga leikmenn. Það er ekki nóg að mæta á æfingar, það þarf að horfa á blak í bestu gæðum þegar tækifærið gefst,“ segir Borja að lokum.