[sam_zone id=1]

Strandblakfélagið stofnað

Nú á dögunum tóku nokkrir aðilar sig til og stofnuðu Strandblakfélag.

Tilgangur félagsins er að stuðla að aukinni iðkun strandblaks, að koma upp heilsársaðstöðu á Íslandi og vinna þannig að framgangi íþróttarinnar.” Stendur á heimasíðu félagsins en hana er hægt að nálgast hér.

Þann 10. júlí, nokkrum dögum eftir stofnun félagsins voru meðlimir orðnir 78 talsins og eru nú að nálgast 100 en við heyrðum í Karli Sigurðssyni einum af stofnendum félagsins og spurðum hann út í framhaldið.

Hvað varð til þess að þið ákváðuð að stofna félagið ?

Undanfarin ár höfum við aðalega verið tveir sem höfum verið að standa í því að finna varanlega inniaðstöðu fyrir sportið. Einnig höfum við verið að berjast fyrir því að strandblakvellirnir í okkar bæjarfélagi verði endurnýjaðir án árangurs.
Það sem við finnum mest fyrir þegar við ræðum við aðra um strandblak eða sækjum um styrki til að bæta aðstöðuna, er að flestir halda að það séu bara nokkrar hræður sem eru að stunda íþróttina hér á landi, og af hverju ættum við að geta fengið betri aðstöðu, fleiri velli eða jafnvel húsnæði undir íþrótt sem hefur ekki fleiri iðkendur.”

Við ákváðum því að reyna að safna saman eins mörgum og við getum, sem áhuga hafa á íþróttinni eða uppbyggingu hennar, í eitt félag og stofnuðum því Strandblakfélagið.

 

Hvert er markmið Strandblakfélagsins ?

Strandblakfélagið er ekkert annað en hagsmunasamtök þeirra sem stunda strandblak á Íslandi. Við erum að sjá gríðarlega fjölgun í íþróttinni á hverju sumri. Á hverju einasta móti sem haldið er þá er fjölgun á þátttökuliðum. Það að 40-50 lið mæti í mót er bara orðið algengt. Akureyringar eru komnir með sína eigin strandblak paradís með magnaðri 4 valla aðstöðu. Þeir eru að halda sín staðbundnu mót þar þar sem 40 lið eru að mæta, og þau lið eru fæst að taka þátt í hinum mótunum.

Nýir stranblakvellir rjúka upp, nú síðast 2 á Dalvík og svo eru að koma 3 eða 4 vellir í Garðabæ og 1 á Vopnafirði. Vellir á landinu fara því fljótlega að detta í 60 talsins. Í vor fóru 80 manns saman á eigin vegum til Krítar til að fara á námskeið í strandblaki. Þar af voru 24 krakkar á aldrinum 11-15 ára sem voru á viku námskeiði, og einungis 1 af þessum krökkum hafði áður stundað blak. Í dag eru margir af þessum krökkum byrjuð að taka þátt í mótum. Ég mundi halda að það séu milli 400 og 500 manns sem fara eitthvað í sandinn á hverju sumri til að leika sér, og það er ekki lítið.

Strandblakfélagið var í rauninni bara hugsað sem stuðningur við alla strandblakara á landinu. Félag sem getur staðið á bakvið hvaða félag eða hóp sem er sem er í baráttu fyrir bættri aðstöðu fyrir íþróttina á sínu svæði. Frá því félagið var stofnað fyrir viku síðan eru meðlimir orðnir 100 og fer fjölgandi. Við vonum að allir strandblakarar á landinu, og ekki bara strandblakarar heldur blakfólk almennt, sjái hag í því að þessi frábæra íþrótt nái lengra svo til verði aðstaða fyrir alla sem áhuga hafa á að stunda.

Eru einhver áform um opnun innistrandblaksvalla ?

Eins og ég nefndi hér áður þá höfum við reynt oftar en einu sinni að fá inniaðstöðu, en sú vinna skilað litlu. Nú þegar við höfum þetta félag á bakvið okkur, þennan mikla stuðning, þá eigum við auðveldara með að sýna framá hversu stór íþróttin er orðin og ætti því að styrkja okkur í baráttunni.

Við erum erum með eina hugmynd í gangi sem er eiginlega á byrjunarreit og því aðeins of snemmt að segja meira frá eins og staðan er. Þegar ég tala um “við” í dag þá erum við ekki lengur bara 2 sem erum að standa í þessu. Við erum komnir með fleiri öfluga einstaklinga sem eru komnir á fullt í þessa vinnu. Bara við stofnun félagsins fóru okkur að berast boð um áhuga fyrirtækja á að styrkja íþróttina og því spennandi tímar framundan.

Inniaðstaðan kemur, það er jafn pottþétt og að ég keppi í strandblaki fram á síðasta dag 🙂

Ég hvet alla, ekki bara strandblakara heldur alla sem vilja sjá strandblak og blak blómstra á Íslandi að skrá sig í félagið.Hér í meðfylgjandi hlekk er hægt að sjá meira um félagið https://strandblak.wixsite.com/strandblakfelagid

 

 

Mynd:  A&R Photos