[sam_zone id=1]

Frakkland og Rússland mætast í úrslitaleik Þjóðardeildar karla

Það verða Frakkland og Rússland sem mætast í úrslitaleik Þjóðardeildar karla 2018 en leikurinn fer fram á morgun kl 18:45.

Úrslitaleikur Þjóðardeildar karla fer fram á morgun kl 18:45 í borginni Lille í Frakklandi. Það verða heimamenn sem taka á móti Rússlandi.

Frakkarnir voru sjálfkrafa komnir inní úrslitariðilinn en enduðu þó í 1. sæti eftir deildarkeppnina með 12 sigra af 15 mögulegum. Frakkarnir byrjuðu úrslitariðilinn á sterkum 3-2 sigri á Brasilíu eftir að hafa verið 0-2 undir í hrinum. Næst mættu þeir Serbíu og lentu ekki í miklum vandræðum þar og tryggðu sér sæti í undanúrslitum með 3-0 sigri. Í undanúrslitum mættu Frakkar sterku liði Bandaríkjana en Frakkar töpuðu niður 2-0 forskoti en sluppu þó fyrir horn með sigri í oddahrinu 15-13.

Rússar enduðu deildarkeppnina í 2.sæti með 11 sigra af 15 mögulegum og mættu Pólverjum í fyrsta leik í úrslitariðlinum. Þar hafði Rússland betur 3-1. Næst mættu þeir Bandaríkjunum og höfðu lítið fyrir sigri í þeim leik 3-0. Rússar mættu svo Brasilíu í undanúrslitum og völtuðu yfir Ólympíumeistarana með 3-0 sigri.

Það verða því Frakkar sem mæta Rússlandi í úrslitaleiknum en Frakkar eru ríkjandi Þjóðardeildarmeistarar (Heimsdeildarmeistarar). Rússar unnu keppnina síðast árið 2013 en Rússar eru ríkjandi Evrópumeistarar.

Bandaríkin og Brasilía leika svo um 3.sætið kl 15:00 á morgun.