[sam_zone id=1]

Tyrkland og Bandaríkin mætast í úrslitum Þjóðardeildar kvenna 2018

Það verða Tyrkland og Bandaríkin sem mætast í úrslitaleik Þjóðardeildar kvenna 2018 en úrslitaleikurinn fer fram í dag kl 11:00 að íslenskum tíma.

Tyrkland endaði í 5.sæti eftir deildarkeppnina og mætti Bandaríkjunum strax í úrslitariðlinum, þar höfðu þær Bandarísku betur 3-2 í æsispennandi leik. Tyrkir mættu næst Serbíu og unnu þar sterkan sigur 3-2 og tryggðu sér því sæti í undanúrslitum. Þar mætti Tyrkneska liðið Brasilíu og var búist við hörkuleik þar. Tyrkir höfðu hinsvegar betur 3-0 (23-25, 23-25, 22-25) og tryggðu sér því sæti í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar.

Bandaríkin enduðu í 1.sæti deildarkeppninnar og mættu eins og fyrr segir Tyrklandi í úrslitariðlinum, þar höfðu þær Bandarísku betur 3-2. Næst mættu þær Serbíu og unnu þar sterkan 3-0 sigur og tryggðu sér því sæti í undanúrslitum. Í undanúrslitum mættu þær heimakonum frá Kína og gerðu sér lítið fyrir og unnu þann leik 3-1 (25-23, 25-20, 18-25, 25-18).

Úrslitaleikurinn hefst kl 11:00 að íslenskum tíma en leikurinn fer fram í borginni Nanjing í Kína.

Fyrr í morgun mættust Brasilía og Kína í leik um 3.sætið en þar hafði Kína betur 3-0 (25-18, 25-22, 25-22)