[sam_zone id=1]

Zenit marði Lube í æsispennandi úrslitaleik

Lið Zenit Kazan sigraði í dag Meistaradeild karla í fjórða skiptið í röð með sigri á Lube Civitanova í oddahrinu.

 

Leikurinn var algjörlega frábær skemmtun og sýndu liðin mikil gæði. Munurinn í fyrstu hrinu var aldrei meiri en tvö stig og mestan hluta hrinunnar skiptust liðin á stigum og héldu í við hvort annað. Stórstjarna Zenit, Wilfredo Leon, átti erfitt uppdráttar í fyrstu hrinum leiksins en þó var fyrsta hrina mjög jöfn. Zenit náði loks í 29-27 sigur og komst 1-0 yfir í leiknum. Önnur hrina var hnífjöfn eins og sú fyrsta en Lube tók forystuna í seinni hluta hrinunnar. Þeir voru í miklum ham og tryggðu sér öruggan 25-18 sigur í hrinunni og jöfnuðu leikinn 1-1.

Lube héldu áfram að þjarma að heimamönnum og voru yfir alla þriðju hrinuna. Zenit náðu aðeins að rétta úr kútnum undir lok hrinunnar en það dugði ekki. Lube sigraði hrinuna 25-23 eftir spennandi lokakafla og var þar með komið í bílstjórasætið. Í fjórðu hrinunni fór Leon loksins í gang hjá Zenit og skoraði í henni 9 stig. Lube hafði forystuna framan af hrinunni en Zenit sigu fram úr undir lok hrinunnar. Þeir náðu því að knýja fram oddahrinu en tæpt var það.

Oddahrinan var ein sú skemmtilegasta í mótinu og viðeigandi að úrslitaleikur bjóði upp á slíka skemmtun. Lube höfðu mest fjögurra stiga forystu í hrinunni og var það í stöðunni 11-7. Þá fór Aleksandr Butko í uppgjöf og kom Zenit aftur inn í leikinn. Mikill hiti var í leikmönnum og þjálfurum beggja liða í oddahrinunni og þurfti mörgum sinnum að styðjast við myndbandsupptökur eða svokölluð “challenge”. Jafnt var í 15-15 þegar Zenit skoraði og komst yfir. Þá fór fyrrnefndur Wilfredo Leon í uppgjöf og skoraði ás beint úr uppgjöfinni. Lið Lube bað um challenge en myndbandsupptaka sýndi boltann lenda beint á línunni. Leon skoraði þar með sitt níunda stig í oddahrinunni og má því fullyrða að hann hafi heldur betur stigið upp í síðustu tveimur hrinunum. Zenit sigraði hrinuna 17-15 og lyftir bikar í Meistaradeild karla fjórða árið í röð.

Wilfredo Leon var stigahæstur allra í leiknum með 33 stig en Tsvetan Sokolov skoraði 29 stig fyrir Lube. Dragan Stankovic, miðjumaður og fyrirliði Lube, átti einnig stórkostlegan leik og skoraði 19 stig, þar af 6 úr hávörn. Lið Lube var grátlega nálægt sigri í leiknum en verður að sætta sig við silfrið að þessu sinni. Ótrúleg sigurganga Zenit heldur því áfram en nú verða ákveðin þáttaskil hjá félaginu þar sem að Wilfredo Leon mun yfirgefa félagið í sumar. Hann kom til liðsins haustið 2014 og hefur unnið Meistaradeildina öll fjögur tímabil sín hjá Zenit. Zenit þurfa þó ekki að örvænta því glaumgosinn Earvin N’gapeth mun leysa Leon af hólmi á kantinum.