[sam_zone id=1]

Lube og Zenit mætast í úrslitum

Í dag fóru fram undanúrslitaleikir Meistaradeildar karla en úrslitahelgin er haldin á heimavelli Zenit í Kazan, Rússlandi.

 

Cucine Lube Civitanova 3-1 Zaksa Kedzierzyn-Kozle (25-21, 22-25, 25-15, 25-18)

Fyrri undanúrslitaleikur dagsins var leikur Lube og Zaksa. Búist var við miklum spennuleik en lið Lube þó talið sigurstranglegra. Lið Lube byrjaði leikinn einmitt af gríðarlegum krafti og sýndi frábæra takta í upphafi fyrstu hrinu. Þeir voru 8-3 yfir snemma leiks en misstu forskotið niður um miðja hrinu. Zaksa náði í fyrsta sinn að jafna leikinn í stöðunni 21-21 en þá tóku Lube yfir. Þeir skoruðu síðustu 4 stigin og unnu hrinuna 25-21. Önnur hrina var hnífjöfn framan af og skiptust liðin á stigum langt fram eftir hrinu. Jafnt var í 17-17 en þá stungu Zaksa af. Þeir sigruðu hrinuna 25-22 og jöfnuðu þar með leikinn, 1-1 í hrinum talið.

Þriðja hrinan varð aldrei spennandi og höfðu Lube algjöra yfirburði. Í seinna tæknileikhléi var staðan 16-9 fyrir Lube og þeir héldu áfram að auka muninn. Þeir sigruðu hrinuna 25-15 og voru komnir í góða stöðu, 2-1 yfir og virtust í miklu stuði. Þeir tóku gott gengi í þriðju hrinunni svo með sér inn í fjórðu hrinuna og náðu 16-11 forystu um miðja hrinuna. Þá var ekki aftur snúið og sigraði Lube hrinuna 25-18 og leikinn þar með 3-1. Stigahæstur í liði Lube var Tsvetan Sokolov með 20 stig en Maurice Torres skoraði 21 stig fyrir Zaksa.

Zenit Kazan 3-0 Sir Colussi Sicoma Perugia (22-25, 22-25, 20-25)

Zenit hefur haft gífurlega yfirburði í Meistaradeildinni síðustu ár og engin breyting varð þar á í dag. Heimamenn í Zenit hófu leikinn vel og komust fljótt 6-2 yfir. Fyrsta hrinan var heldur sveiflukennd og virtist Perugia nokkrum sinnum ætla að jafna leikinn. Zenit stóðust þó öll áhlaup þeirra og sigruðu fyrstu hrinuna 25-22. Önnur hrina var öllu ójafnari þar sem að Zenit hafði forystuna allt frá byrjun. Mestur varð munurinn 8 stig og lauk hrinunni með 25-20 sigri Zenit. Heimamenn því í góðri stöðu en Perugia þurfti á kraftaverki að halda.

Perugia hóf þriðju hrinuna mjög vel og var skrefinu á undan allt fram undir miðja hrinu. Þá skelltu Zenit þó í lás og skoruðu 4 stig í röð. Þetta sló lið Perugia út af laginu og endaði hrinan með öruggum 25-20 sigri Zenit. Þeir eru því komnir í úrslit enn eitt árið og eiga möguleika á því að ná í fjórða gullið í röð á morgun. Wilfredo Leon skoraði 19 stig fyrir Zenit en Aleksandar Atanasijevic skoraði 12 stig fyrir Perugia.

Á morgun mætast því Zaksa og Perugia í leiknum um bronsið og Lube og Zenit í úrslitaleiknum. Bronsleikurinn hefst klukkan 13 og úrslitaleikurinn klukkan 16. Lið Lube hefur fengið bronsverðlaun síðustu 2 ár en getur nú tryggt sér fyrstu gullverðlaunin síðan 2002. Zenit hafa unnið keppnina síðustu þrjú ár og verið á verðlaunapalli 6 sinnum á síðustu 7 árum. Perugia vann sín einu verðlaun í Meistaradeildinni þegar liðið fékk silfur á síðasta ári en lið Zaksa á einnig ein verðlaun í sinni sögu, brons frá árinu 2003.