[sam_zone id=1]

Final Four Meistaradeildar karla fer fram um helgina

Helgina 12.-13. maí fer fram Final Four Meistaradeildar karla. Leikið verður í Kazan í Rússlandi og verða leikirnir allir sýndir á Laola1.TV.

 

Meistaradeild kvenna lauk um síðustu helgi og nú er komið að körlunum að ljúka tímabilum sínum. Liðin sem taka þátt að þessu sinni eru Zenit Kazan frá Rússlandi, Zaksa Kedzierzyn-Kozle frá Póllandi og ítölsku liðin Cucine Lube Civitanova og Sir Colussi Sicoma Perugia. Á síðasta ári mættust lið Zenit og Perugia í úrslitum keppninnar en nú mætast þau í undanúrslitum. Fyrirkomulag helgarinnar má sjá hér að neðan :

Laugardagur

 

13:00 Zaksa Kedzierzyn-Kozle – Cucine Lube Civitanova

16:00 Zenit Kazan – Sir Colussi Sicoma Perugia.

Á sunnudeginum verður svo leikið um bronsið klukkan 13:00 og svo hefst úrslitaleikurinn 16:00. Hér er um að ræða tíma á Íslandi.

Leiðir liðanna í úrslitahelgina hafa verið mjög misjafnar en öll höfðu þau mikla yfirburði í riðlakeppninni. Síðan þá hafa andstæðingar þeirra veitt þeim mismikla keppni en Zenit Kazan hefur t.d. sigrað alla sína leiki 3-1 og 3-0. Þeir fengu vissulega þægilega leið að úrslitunum þar sem að þeir eru mótshaldarar, en því tóku þeir ekki þátt í útsláttarhluta keppninnar. Samantektir um liðin og leiðir þeirra í úrslitin má sjá hér :

Zenit Kazan

Lið Zenit Kazan hefur verið nánast óstöðvandi síðustu ár og hefur unnið gullið í Meistaradeildinni síðustu þrjú ár. Þeirra sterkasti leikmaður er án nokkurs vafa kantsmassarinn Wilfredo Leon, en þetta verður hans síðasta tímabil hjá Zenit. Einnig leika hinn bandaríski Matt Anderson og Rússinn Maxim Mikhailov með liðinu en Mikhailov var valinn besti leikmaður EM síðasta sumar. Zenit sigraði eins og áður sagði alla leiki sína í riðlakeppninni þar sem þeir léku gegn Toulouse, Berlin og Jastrzebski. Þeir eru mótshaldarar Final Four og því fóru þeir beint úr riðlakeppninni í úrslitahelgina og tóku hvorki þátt í 12-liða né 6-liða úrslitunum.

Sir Colussi Sicoma Perugia

Nýkrýndir Ítalíumeistarar Perugia tryggðu sér titilinn heima fyrir í síðustu viku, þar sem þeir sigruðu Lube í úrslitaeinvígi. Samband uppspilara liðsins, Luciano De Cecco, og smassarans Aleksandar Atanasijevic er ótrúlegt og hefur Atanasijevic verið stigahæsti leikmaður liðsins í flestum leikjum tímabilsins. Þó verður einnig að fylgjast vel með hinum litríka Ivan Zaytsev. Perugia sigraði A-riðil en í honum voru lið Lube, Fenerbahce og Roeselare. Liðið hélt svo áfram sigurgöngu sinni og sló Halkbank Ankara út með því að sigra þá tvisvar, tiltölulega þægilega í bæði skipti. Þeir mættu svo Lokomotiv Novosibirsk í 6-liða úrslitum og sigruðu þá eftir spennandi einvígi.

Ivan Zaytsev, leikmaður Perugia, er óárennilegur í hávörn liðsins.

Zaksa Kedzierzyn-Kozle

Þetta lið er líklega það reynsluminnsta hvað varðar Meistaradeild Evrópu. Liðsmenn þess eru þó vanir því að spila stóra leiki og ættu að höndla pressuna ágætlega. Uppspilari liðsins er franski töframaðurinn Benjamin Toniutti og aðalsmassari liðsins er hinn ungi Sam Deroo. Einnig leikur frelsinginn Pawel Zatorski með liðinu og stjórnar hann leik liðsins ásamt Toniutti. Auk Deroo ber mikið á Maurice Torres í sóknarleik liðsins. Zaksa sigraði E-riðil en þar léku einnig Trentino, Maaseik og Izmir. Þeir sigruðu svo Jastrzebski í 12-liða úrslitum og Friedrichshafen í 6-liða úrslitum.

Cucine Lube Civitanova

Lið Lube hefur unnið bronsið í Meistaradeildinni síðust tvö ár en eiga nú ágætis möguleika á því að komast í úrslitaleikinn. Liðið hefur leikið vel á tímabilinu og hafa Osmany Juantorena og Tsvetan Sokolov verið gríðarlega öflugir í sóknarleik liðsins. Micah Christenson, uppspilari liðsins, hefur einnig verið frábær og erfitt er að skora gegn frelsingja þeirra, Jenia Grebennikov. Miðjumenn liðsins hafa þó ekki verið mikil ógn en komast oft ágætlega frá sínum verkefnum hjá liðinu. Lube var í öðru sæti A-riðils á eftir Perugia og sigraði PGE Skra í 12-liða úrslitum eftir tvo stórkostlega leiki. Þeir mættu svo löndum sínum hjá Trentino í 6-liða úrslitum og sigruðu þá með naumindum.