[sam_zone id=1]

Vakifbank Istanbul evrópumeistari annað árið í röð

Vakifbank varði nú um helgina titil sinn í meistaradeild kvenna þegar liðið vann Alba Blaj frá Rúmeníu í úrslitaleik meistaradeildarinnar.

Fjörið byrjaði á laugardeginum þegar að Vakifbank mætti Conegliano frá Ítalíu í fyrri undanúrslitaleik dagsins en þetta eru einmitt liðin sem að mættust í úrslitum árið áður en þar vann Vakifbank. Það stefndi allt í öruggan sigur Vakifbank í byrjun en þær unnu fyrstu tvær hrinurnar nokkuð örugglega 25-21 og 25-22. Conegliano því komið með bakið upp að vegg og þær spyrntu heldur betur frá sér og hreinlega rúlluðu yfir Vakifbank í næstu tveimur hrinum en þær unnu 25-17 og 25-15 og komu leiknum þar með í oddahrinu. Þar var hörkuspenna alla hrinuna en Conegliano komst í góða stöðu 12-9 og virtust ætla að slá evrópumeistarana út en eins og Conegliano gerði fyrr í leiknum þá neitaði Vakifbank að gefast upp og þær komust yfir 13-12. Það voru síðan Vakifbank sem að reyndust sterkari á lokasprettinum en þær unnu 16-14 og tryggðu sér þar með miða í úrlitaleikinn.

Hinn undanúrslitaleikurinn var einnig mjög góð skemmtun en þar mættust heimakonur í Alba Blaj og Galatasaray frá Tyrklandi. Það voru Tyrkirnir sem að byrjuðu betur og unnu fyrstu hrinuna 25-23. Stressið virtist vera farið úr heimakonum eftir fyrstu hrinuna og sýndu þær frábæra takta og unnu næstu tvær hrinur 25-17 og 25-22. Þær héldu síðan uppteknum hætti í byrjun fjórðu hrinu og í stöðunni 24-16 virtust þær vera búnar að klára þennan leik en Galatasaray neituðu að gefast upp og náðu að setja smá spennu í þetta en Alba Blaj skoruðu síðasta stigið og unnu 25-22.

Það var því ljóst að Vakifbank og Alba Blaj myndu mætast í úrslitum en fyrst þurfti að spila bronsleikinn.
Conegliano voru augljóslega gríðarlega svekktar að vera að spila þennan leik eins og Galatasaray en þær létu svekkelsið ekkert á sig fá og spiluðu mjög vel og unnu örugglega 3-0 (25-17, 25-18, 25-20).

Í úrslitunum voru það svo heimakonur í Alba Blaj sem að tóku á móti tyrkneska stórveldinu Vakifbank. En til að gera langa sögu stutta þá var mikill gæðamunur á þessum liðum í þessum leik og unnu Vakifbank stórsigur 3-0 (25-17, 25-11, 25-17). Vakifbank voru mun líklegri fyrir leikinn en munurinn er kannski óþarflega stór í úrslitaleik meistaradeildarinnar en þrátt fyrir þetta tap geta Alba Blaj verið stoltar af sínum árangri.

Eftir þessa helgi var að sjálfsögðu valið lið mótsins en þar var fyrirliði Vakifbank Gözde Kirdar valin besti leikmaður mótsins en þetta voru hennar síðustu leikir sem atvinnumaður í blaki.

Lið mótsins
Uppspilari: Joanna Wolosz, Imoco Volley CONEGLIANO
Díó: Ana Yilian Cleger Abel, CSM Volei Alba BLAJ
Kanntur: Zhu Ting, VakifBank ISTANBUL
Kanntur: Kimberly Hill, Imoco Volley CONEGLIANO
Miðja: Milena Rasic, VakifBank ISTANBUL
Miðja: Nneka Obiamaka Onyejekwe, CSM Volei Alba BLAJ
Frelsingi: Hatice Gizem Örge, VakifBank ISTANBUL
MVP: Gözde Kirdar, VakifBank ISTANBUL

Nánari umjöllun og úrslit má finna hér.