[sam_zone id=1]

Calais með sigur í síðasta leik tímabilsins

Calais lék um helgina sinn síðasta leik í frönsku N2 deildinni en andstæðingarnir að þessu sinni voru lið Villejuif. Þessi leikur skipti litlu máli þar sem úrslitin í deildinni höfðu ráðist daginn áður þegar Cambrai vann sinn leik gegn Mulhouse og tryggði sér efsta sæti riðilsins.

Leikmenn Calais voru þrátt fyrir það ákveðnir í að enda tímabilið á sigri og byrjuðu þeir leikinn vel og náðu fljótt góðri forystu í leiknum. Villejuif var þó aldrei langt á undan og var leikurinn mjög jafn þó að Calais héldi áfram frumkvæðinu í hrinunni. Calais tryggði sér svo að lokum sigur í hrinunni 25-23.

Önnur hrinan var svipuð og sú fyrsta þar sem Calais náði fljótt nokkura stiga forskoti en þeir náðu þó aldrei að hrista Villejuif almennilega af sér, þrátt fyrir nokkur góð tækifæri til þess. Endinn á hrinunni var síðan æsispennandi þar sem Villejuif komust í 24-23. Calais gáfust þó ekki upp og með góðri barráttu náðu þeir að vinna hrinuna 28-26.

Þriðja hrinan var síðan eins og fyrri tvær Calais var ávallt með yfirhöndina en Villejuif þó aldrei langt á undan. Bæði lið fóru síðan að skipta inn öðrum leikmönnum og gefa þeim séns í lok tímabils. Það riðlaði þó ekki leik Calais og unnu þeir einnig þriðju hrinuna 25-22 og þar með leikinn 3-0.

Hafsteinn Valdimarsson var að vanda í byrjunarliði Calais og átti hann mjög góðan leik en leikmenn Villejuif réðu lítið við hann í sókninni en hann átti einnig nokkrar góðar hávarnir.

Calais endar því tímabilið sem fyrr segir í öðru sæti með jafnmörg stig og Cambrai en lélegri innbyrðisviðureignir og nær því ekki að komast upp um deild þetta árið.
Þrátt fyrir það flottur árangur hjá liðinu og óska blakfréttir Hafsteini og félögum hans til hamingju með flott tímabil.

Nánari úrslit má sjá hér.