[sam_zone id=1]

Grunnskólamót UMSK í blaki fer fram í vikunni

Miðvikudaginn 9. maí fer fram grunnskólamót UMSK í blaki. Mótið fer fram í Kórnum og taka um 600 krakkar þátt.

 

Grunnskólamót UMSK verður haldið í Kórnum þann 9. maí og eru þátttakendur nemendur í 4.-7. bekk í skólum í Garðabæ, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Mótið er tilraunaverkefni milli UMSK og BLÍ og lofar fjöldi þátttakenda góðu. Spilað verður í tveggja manna liðum og að hámarki eru 2 skiptimenn leyfðir í hverju liði. Yfir 250 lið eru skráð til leiks og er því um gríðarlegt magn leikja að ræða. Leikið verður á skólatíma og er stefnt að því að spila frá 9 að morgni og ljúka mótinu um klukkan 14.

Þar sem að mótið er umfangsmikið þarf marga sjálfboðaliða til að fá það til að ganga upp. Enn leitar BLÍ að aðstoð við mótið og við hjá Blakfréttum hvetjum alla sem geta að mæta á svæðið og hjálpa til og fylgjast á sama tíma með þessu skemmtilega verkefni. Hægt er að hafa samband við BLÍ á facebook eða með því að senda póst á motastjori@bli.is. Auglýsingu BLÍ má finna á Facebook-síðu sambandsins.