[sam_zone id=1]

Galina og Lugano bæði 1-0 undir eftir töp

Lið VBC Galina og Volley Lugano í Sviss hófu í gær einvígi sín um sæti í úrslitakeppninni þar í landi.

 

VBC Galina, lið Thelmu Daggar Grétarsdóttur, leikur um 7. sætið og átti útileik gegn liði ZESAR í gær. Lið ZESAR átti erfitt uppdráttar í deildarkeppninni í vetur en hefur sótt í sig veðrið síðustu mánuði tímabilsins. Galina hafði hins vegar átt marga góða leiki í vetur en átt misjafna leiki og vantað stöðugleika. Leikurinn byrjaði illa fyrir Galina og töpuðu þær fyrstu hrinunni 25-17. Meiri spenna var í hrinu tvö en á endanum tapaðist hún 26-24. Þriðja hrinan var svo svipuð þeirri fyrstu og lauk henni 25-19. ZESAR sigraði leikinn því 3-0 og er 1-0 yfir í einvíginu. Sigra þarf tvo leiki og verður sá næsti þann 21. apríl næstkomandi á heimavelli Galina.

Volley Lugano, sem Elísabet Einarsdóttir leikur með, berst um 5. sætið og leikur þar gegn liði Viteos. Fyrsti leikurinn fór fram á heimavelli Lugano en hann fór þó ekki vel af stað fyrir heimaliðið. Fyrstu tvær hrinurnar töpuðust illa, 15-25 og 14-25, en sú þriðja var æsispennandi. Henni lauk þó með 23-25 sigri Viteos sem tryggði sér þar með forystu í einvíginu. Annar leikur liðanna verður einnig þann 21. apríl og þá verður leikið á heimavelli Viteos.