[sam_zone id=1]

Ravenna sigraði Challenge Cup

Tveimur evrópukeppnum lauk nýlega í karlaflokki en það voru CEV Cup og Challenge Cup.

 

Þessar tvær keppnir eru opnar töluvert fleiri liðum en Meistaradeildin og því taka fleiri lið þátt. Þar má t.d. nefna að Íslendingaliðið BK Tromsø tók þátt í Challenge Cup en tapaði þar fyrir danska liðinu Gentofte. Gentofte mættu stórliði Ravenna í næstu umferð og voru slegnir út þrátt fyrir hetjulega baráttu gegn verðandi meisturum. Mörg sterk lið taka þátt í keppnunum og hófu 43 lið keppni í Challenge Cup en 24 lið í CEV Cup.

Í undanúrslitum CEV Cup mættust annars vegar Belogorie Belgorod frá Rússlandi og Asseco Resovia Rzeszow frá Póllandi og hins vegar Calzedonia Verona frá Ítalíu og Ziraat Bankasi Ankara frá Tyrklandi. Belgorod og Ankara sigruðu sín einvígi og mættust því í úrslitarimmu um titilinn. Svo fór að Belgorod sigraði báða leikina (3-0 og 2-3) og tryggðu sér gullverðlaun í CEV Cup 2018. Rússinn Dimitriy Muserskiy fór mikinn fyrir Belgorod í úrslitaleikjunum og skoraði 34 stig í leikjunum tveimur og var með frábæra sóknarnýtingu.

Liðin sem mættust í undanúrslitum Challenge Cup voru Gazprom-Ugra Surgut frá Rússlandi og Olympiacos Piraeus frá Grikklandi annars vegar en hins vegar voru það Bunge Ravenna frá Ítalíu og Maliye Piyango SK Ankara frá Tyrklandi. Olympiacos sigruðu báða leiki sína gegn Surgut 3-0 en í hinu einvíginu þurfti gullhrinu til að skera úr um sigurvegara. Ravenna sigraði gullhrinuna 16-14 og tryggði sér þar með sæti í úrslitunum og mættu þar Olympiacos. Ravenna sigruðu fyrri leikinn, sem fór fram á þeirra heimavelli á Ítalíu, en áttu erfitt verkefni fyrir höndum í seinni leiknum í Grikklandi.

Stuðningsmenn Olympiacos voru algjörlega magnaðir

Sá leikur var ótrúlegur að sjá enda var íþróttahúsið stútfullt af 11.800 stuðningsmönnum Olympiacos sem höfðu mikil læti á meðan að leiknum stóð. Þar sem að Ravenna sigraði fyrri leikinn 3-1 á sínum heimavelli þurftu þeir að vinna a.m.k. tvær hrinur til að tryggja sér titilinn. Það tókst þegar þeir sigruðu þriðju hrinuna og náðu 2-1 forystu í leiknum. Þeir gerðu svo vel í fjórðu hrinu og sigruðu leikinn 3-1 og fögnuðu innilega í leikslok. Það helsta úr leiknum í Grikklandi má sjá með því að smella hér en einnig er hægt að horfa á leikinn í heild sinni með því að smella hér.