[sam_zone id=1]

Perugia mætir Zenit Kazan í undanúrslitum Meistaradeildar karla

Í gærkvöldi lauk 6-liða úrslitum Meistaradeildar karla þegar ítölsku liðin Perugia og Lube tryggðu sér sæti í Final Four helgi mótsins.

 

Fyrri leikir umferðarinnar voru allir æsispennandi og því von á góðri skemmtun. Lið Perugia, Lube og Zaksa höfðu betur í fyrri leikjunum en áttu öll erfiða útileiki fyrir höndum. Tveir leikjanna urðu svo sannarlega spennandi en Zaksa fór þó létt með Friedrichshafen og sigraði 3-0. Perugia og Lube unnu fyrri leikina 3-1 gegn andstæðingum sínum og dugði því að vinna tvær hrinur. Lube komst í 2-0 í sínum leik og Perugia komst 2-1 yfir og því bæði liðin orðin örugg áfram. Leikirnir fóru þó báðir í oddahrinu og buðu upp á frábært blak.

Úrslit (Lið sem komust áfram merkt með feitletrun)

 

Lokomotiv Novosibirsk 3-2 Sir Colussi Sicoma Perugia (20-25, 25-22, 17-25, 25-21, 15-11). Aleksandar Atanasijevic var stigahæstur hjá Perugia með 16 stig en Sergey Savin skoraði sömuleiðis 16 stig fyrir Lokomotiv.

Trentino Diatec 2-3 Cucine Lube Civitanova (19-25, 21-25, 25-20, 27-25, 15-17). Nicholas Hoag skoraði 20 stig fyrir Trentino en Jiri Kovar og Osmany Juantorena skoruðu 13 stig hvor fyrir Lube.

VfB Friedrichshafen 0-3 Zaksa Kedzierzyn-Kozle (19-25, 18-25, 13-25). Maurice Torres skoraði 16 stig fyrir Zaksa en David Sossenheimer skoraði 9 stig fyrir Friedrichshafen.

Lið Perugia, Lube og Zaksa eru því komin í undanúrslit keppninnar sem og mótshaldarar Zenit Kazan. Úrslitahelgin fer fram dagana 12. og 13. maí en þar mæta núverandi meistarar Zenit liði Perugia. Í hinu einvíginu mætast Zaksa og Lube en liðin fjögur eru öll gríðarsterk og þessi helgi verður viðburður sem enginn vill missa af.