[sam_zone id=1]

KA komnir nær Íslandsmeistaratitlinum

HK og KA mættust í kvöld í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitil karla en KA vann fyrri leikinn 3-1.

HK byrjaði fyrstu hrinu vel og voru með 2-3 stig í forskot á KA menn framan af. Undir miðja hrinu náði KA hinsvegar að jafna og snéru hrinunni sér í hag. KA hafði að lokum betur í fyrstu hrinu 25-21.

Önnur hrina byrjaði hnífjöfn en undir miðja hrinu fóru HK menn að gefa í og náðu þeir mest 7 stiga forskoti. Flottur sóknarleikur KA varð hinsvegar til þess að þeir ná að minnka muninn niður í 22-21 og setja spennu í hrinuna. HK menn voru hinsvegar sterkari á lokakaflanum og höfðu betur 25-23.

KA höfðu yfirhöndina nánast alla þriðju hrinu og voru ávalt skrefi á undan HK. HK gekk illa að taka á móti stöðugum uppgjöfum KA og þá var sóknarleikur KA mun beittari. HK náði hinsvegar að jafna í stöðunni 19-19 og tók þá við nokkuð spennandi lokakafli. Í stöðunni 24-21 fyrir KA fær þjálfari HK, Massimo Pistoia gult spjald fyrir kröftug mótmæli við aðstoðardómara leiksins og var hann stálheppinn að sleppa við rautt spjald. KA höfðu að lokum betur 25-21 og því komnir í góða stöðu.

Aftur voru það KA sem voru með yfirhöndina í fjórðu hrinu og sýndu þeir góðan sóknarleik sem heimamenn réðu illa við. HK reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en þrátt fyrir góðan lokakafla þá var það ekki nóg. KA hafði betur 25-22 og vann því leikinn 3-1.

KA menn eru því komnir yfir 2-0 í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn og nægir þeim sigur þegar liðin mætast í þriðja leik næsta þriðjudag kl 20:00 í KA heimilinu.

Stigahæstur í leiknum í dag var Quentin Moore leikmaður KA með 27 stig. Stigahæstur í liði HK var Andreas Hilmir Halldórsson með 14 stig.