[sam_zone id=1]

Afturelding í úrslit eftir 3-0 sigur á Stjörnunni

Afturelding og Stjarnan mættust í kvöld í þriðja leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn en Afturelding hafði unnið fyrstu tvo leikina.

Afturelding var yfir 2-0 í einvíginu og dugði því sigur í kvöld til að komast í úrslit. Stjarnan varð hinsvegar að vinna til að halda í vonina um að komast í úrslit.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og komst í 3-0 áður en Afturelding fékk sitt fyrsta stig. Birta Björnsdóttir var mætt í byrjunarliðið hjá Stjörnunni og tók við uppspilinu af Rósu Dögg Ægisdóttir sem meiddist í fyrsta leik.

Afturelding var ekki lengin að jafna leikinn 3-3 og við tók kaflaskipt hrina þar sem liðin skiptust á góðum skorpum. Stjarnan byrjaði þá á að taka 4 stig í röð áður en Afturelding tók næstu 6 stig. Eftir nokkur kaflaskipti var það Afturelding sem hafði betur 25-21.

Stjarnan byrjaði af miklum krafti í annari hrinu og komst í 8-2 en Stjarnan skoraði 4 ása með stuttu millibili. Aftur sýndi Afturelding hinsvegar mikla baráttu og náðu að jafna 10-10 en þá tók við hörkukafli þar sem bæði lið gáfu ekkert eftir og fór hrinan að lokum í upphækkun þar sem Afturelding hafði betur 27-25.

Þriðja hrina byrjaði nokkuð jöfn en fljótlega var það Afturelding sem tók völdin og hafði að lokum betur 25-17 og vann því leikinn 3-0.

Stigahæst í leiknum var Erla Rán Eiríksdóttir leikmaður Stjörnunnar með 17 stig. Stigahæst í liði Aftureldingar var Haley Rena Hampton með 16 stig.

Afturelding er þar með komin í úrslit og mætir þar annað hvort Þrótti Nes eða HK en Þróttur Nes er 2-0 yfir í leikjum.