[sam_zone id=1]

Þróttur Nes sigraði HK öðru sinni

HK tók á móti Þrótti frá Neskaupstað í Fagralundi í dag. Þetta var annar leikurinn í einvígi liðanna í undanúrslitum og leiddi Þróttur 1-0.

 

Þróttur byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og náði strax 0-7 forystu. HK sneri því þó við á ótrúlegan hátt og jafnaði 9-9. Þá setti Þróttur aftur í fluggírinn og sigraði hrinuna sannfærandi, 15-25. Uppgjafir Þróttara voru góðar og HK var í töluverðum vandræðum með móttökuna. Þróttur byrjaði aftur betur í annarri hrinunni og var skrefi á undan liði HK framan af hrinunni. Mikið var um langar skorpur í hrinunni og var hún fínasta skemmtun. Þróttarar tóku góða skorpu um miðja hrinu og náðu 15-20 forystu. Emil Gunnarsson, þjálfari HK, tók leikhlé í stöðunni 17-22 og reyndi að snúa hrinunni sér í vil. Ekki gekk það þó upp og Þróttur vann aðra hrinuna 17-25.

HK komst fljótt yfir í þriðju hrinu og leiddu 5-3. Þróttarar héldu þó áfram að gera móttökulínu HK lífið leitt og náðu 6-9 forystu. HK náði að jafna 10-10 með Hönnu Maríu í uppgjöf en aftur náði Þróttur að slíta sig frá þeim. HK tók sitt annað leikhlé í stöðunni 10-15, Þrótti í vil. Heiða Elísabet Gunnarsdóttir var með frábærar uppgjafir allan leikinn og í þetta skiptið kom hún Þrótti 11-19 yfir. HK komst þá aftur á skrið og minnkaði muninn í 18-21. Munurinn reyndist þó of mikill og sigraði Þróttur hrinuna 19-25 og leikinn þar með 0-3.

Paula Del Olmo Gomez skoraði 14 stig fyrir Þrótt en Matthildur Einarsdóttir skoraði 9 stig fyrir HK. Þróttur er nú í mjög góðri stöðu, 2-0 yfir í leikjum talið. Enn fremur verður næsti leikur spilaður á mánudaginn í Neskaupstað og getur lið Þróttar klárað einvígið með sigri þar. Í hinu einvígi undanúrslitanna mætast Stjarnan og Afturelding, en annar leikur þeirra hefst nú klukkan 15:15, á Álftanesi. Afturelding vann fyrsta leik liðanna og er því mikilvægt fyrir Stjörnuna að sigra í dag.