[sam_zone id=1]

Afturelding sigraði Stjörnuna og leiðir einvígið 2-0

Stjarnan fékk Aftureldingu í heimsókn í dag en liðin leika í undanúrslitum Íslandsmótsins. Afturelding sigraði fyrsta leikinn og leiddi þar með einvígið 1-0.

 

Rósa Dögg Ægisdóttir, uppspilari Stjörnunnar, lék ekki með liði sínu í dag vegna meiðsla sem hún varð fyrir í fyrsta leik liðanna. Í stað hennar var komin Guðrún Ása Kristleifsdóttir. Leikurinn var hnífjafn til að byrja með og var staðan jöfn 9-9. Afturelding komst fjórum stigum yfir eftir góðar uppgjafir frá Fjólu Rut og hélst sá munur nokkuð lengi. Stjarnan komst svo á skrið undir lok hrinunnar og minnkaði muninn í 18-19. Þá fór Fjóla Rut aftur í uppgjöf og breytti Afturelding þá stöðunni í 18-24. Afturelding sigraði hrinuna 20-25.

Stjarnan byrjaði aðra hrinuna betur og náði strax góðu forskoti. Stjörnustelpur voru 9-5 yfir og settu góða pressu á Aftureldingu með sterkum uppgjöfum. Afturelding tók sitt fyrsta leikhlé í stöðunni 12-7 fyrir Stjörnunni en áfram hélt munurinn að aukast. Ekkert gekk upp hjá Aftureldingu og Stjarnan hélt góðri pressu á gestunum. Afturelding tók sitt annað leikhlé í stöðunni 18-11 og lagaðist staðan nokkuð í kjölfarið. Afturelding minnkaði muninn í 19-17 og hleypti spennu í hrinuna á ný. Klaufaleg sóknarmistök gerðu það þó að verkum að Afturelding komst ekki nær og Stjarnan sigraði hrinuna 25- 21.

Stjarnan hélt uppteknum hætti í byrjun þriðju hrinu og skoraði Ragnheiður Tryggvadóttir þrjá ása í röð. Afturelding vaknaði loks í stöðunni 0-4 en Stjarnan hélt þó forystunni. Afturelding tók leikhlé í stöðunni 10-6 fyrir Stjörnunni og náði að snúa hrinunni sér í vil með ótrúlegum kafla. Afturelding skoraði 12 stig í röð og var liðið þar með komið 10-18 yfir. Sveiflur hrinunnar héldu áfram og náði Stjarnan að minnka muninn í 19-21 en gerði nokkur mistök undir lokin. Afturelding sigraði hrinuna 19-25.

Bæði lið byrjuðu fjórðu hrinu rólega og var mikið um mistök. Stjarnan náði þó 7-4 forystu. Stjarnan hafði yfirhöndina lengi framan af hrinunni og var 16-12 yfir um hana miðja. Einbeitingarleysi var þó báðum megin við netið og var blakið sem sást í fjórðu hrinunni seint talið fallegt. Baráttan var hins vegar til staðar hjá báðum liðum og þá sérstaklega liði Aftureldingar. Gestirnir úr Mosfellsbæ komust loks yfir í stöðunni 17-18 og héldu áfram að þjarma að Stjörnukonum. Steinunn Guðbrandsdóttir átti svo frábærar uppgjafir og Afturelding sigraði hrinuna 18-25. Þær sigruðu þar með leikinn 3-1 og eru komnar 2-0 yfir í einvíginu.

Næsti leikur verður á mánudag og fer fram í Mosfellsbæ. Afturelding getur því tryggt sér sæti í úrslitarimmunni með sigri á mánudag. Því miður var engin tölfræði tekin fyrir þennan leik.