[sam_zone id=1]

Sigurganga Friedrichshafen á enda

Fyrri hluti 6-liða úrslita Meistaradeildar karla fór fram á þriðjudag með þremur leikjum.

 

Spennan er orðin gífurleg á þessu stigi keppninnar og voru allir leikirnir þrír frábær skemmtun. Tveimur þeirra lauk 3-1 en sá þriðji fór í oddahrinu. Lið Zaksa sigraði Friedrichshafen 3-2 en þetta var fyrsta tap Friedrichshafen á tímabilinu. Þeir fóru í gegnum deildarkeppnina í Þýskalandi með því að vinna alla 20 leiki sína og sigruðu einnig bikarkeppnina þar í landi. Auk þess voru þeir taplausir í Meistaradeildinni hingað til og hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í þýsku úrslitakeppninni.

Úrslit

 

Sir Colussi Sicoma Perugia 3-1 Lokomotiv Novosibirsk (24-26, 25-15, 25-19, 25-21). Aleksandar Atanasijevic var stigahæstur hjá Perugia með 21 stig en Artem Smolyar og Sergey Savin skoruðu 11 stig hvor fyrir Novosibirsk.

Cucine Lube Civitanova 3-1 Trentino Diatec (25-22, 23-25, 25-19, 28-26). Osmany Juantorena skoraði 19 stig fyrir Lube en Filippo Lanza skoraði 18 stig fyrir Trentino. Þeir tveir eru einmitt samherjar í ítalska landsliðinu og hafa skipað stöður kantsmassara í byrjunarliði þeirra.

Zaksa Kedzierzyn-Kozle 3-2 VfB Friedrichshafen ( 25-23, 25-21, 22-25, 22-25, 15-13). Maurice Torres skoraði 29 stig fyrir Zaksa Bartlomiej Boladz skoraði 20 stig fyrir Friedrichshafen.

Seinni leikir liðanna fara fram í næstu viku, þann 11. apríl og kemur þá í ljós hvaða þrjú lið munu fara í Final Four helgina ásamt mótshöldurum Zenit Kazan.