[sam_zone id=1]

Meistaradeild kvenna – Galatasaray síðastar til að tryggja sig inn í Final 4

Nú er orðið ljóst hvaða lið það eru sem taka þátt í úrslitahelginni í meistaradeild kvenna í byrjun maí mánaðar. Seinni leikirnir í 6-liða úrslitum fóru fram í vikunni og var þar hart barist.

Mesta eftirvæntingin var viðureign Novara frá Ítalíu og Galatasaray frá Tyrklandi, fyrri leikur liðana endaði með sigri Novara eftir oddahrinu og ljóst að þær voru í góðri stöðu fyrir seinni leikinn sem fór fram á heimavelli þeirra.

Novara byrjuðu leikinn einnig betur og unnu þær fyrstu hrinu leiksins 26-24. Því var orðið ljóst að Galatasaray þurfti að vinna næstu þrjár hrinur til að tryggja sig áfram. Þær mættu einbeittar til leiks í annari hrinu og unnu hana eftir mikla barráttu 20-25. Þær voru síðan komnar á bragðið og leiddar áfram af fyrirliða sínum Neslihan Demir sem var algjörlega frábær í þessum leik. Unnu þær einnig tvær næstu hrinur 17-25 og 19-25 og tryggðu sig þar með áfram í undanúrslit keppninnar.

Í öðrum leikjum umferðarinnar náði Dinamo Kazan að sigra Conegliano á heimavelli 3-2 en það dugði ekki til og fara þær ítölsku áfram úr þessari viðureign.
Vakifbank frá Istanbul átti svo í litlum vandræðum með svissnesku meistarana í Volero Zurich en þeir unnu öruggan 3-0 sigur á heimavelli og fara því einnig áfram í undanúrslit.

Fjórða liðið í undanúrslitunum er síðan Alba Blaj frá Rúmeníu en þær fóru beint í undanúrslitin sem mótshaldarar.

Úrslit vikunnar:

Vakifbank Istanbul – Volero Zurich 3-0 (25-12, 25-14, 25-17)
Stigahæstar: Zhu Ting Vakifbank 21 stig, Lonneke Slöetjes Vakifbank 14 stig

Dinamo Kazan – Imoco Volley Conegliano 3-2 (25-15, 21-25, 20-25, 25-17, 15-13)
Stigahæstar: Irina Voronkova Dinamo 20 stig, Samanta Fabris Conegliano 18 stig

Igor Gorgonzola Novara – Galatasaray SK Istanbul 1-3 (26-24, 20-25, 17-25, 19-25)
Stigahæstar: Neslihan Demir Galatasaray 38 stig, Paola Egonu Novara 24 stig

Nánari tölfræði má sjá hér.