[sam_zone id=1]

Lugano sigraði Galina í fyrsta leik einvígisins

Íslendingaslagur Volley Lugano og VBC Galina hófst í gærkvöldi en einvígið er hluti af umspili um 5.-8. sæti í Sviss.

Elísabet og félagar í Volley Lugano eftir sigur í fyrsta leik

 

Elísabet Einarsdóttir (Lugano) og Thelma Dögg Grétarsdóttir (Galina) hafa mæst nokkrum sinnum á tímabilinu og mætast nú tvisvar eða þrisvar til viðbótar í þessu einvígi, en vinna þarf tvo leiki til að sigra einvígið. Fyrsti leikur liðanna var leikinn í gærkvöldi og var hann æsispennandi. Leikið var á heimavelli Galina í þessum leik en Lugano byrjaði hins vegar mun betur og sigraði fyrstu hrinu örugglega, 16-25. Eftir þetta jókst spennan fljótt og voru næstu þrjár hrinur ekki fyrir hjartveika.

Þrjár síðustu hrinurnar fóru allar í upphækkun en Galina náði að jafna leikinn með því að sigra aðra hrinuna, 29-27. Lugano náði svo aftur tökum á leiknum með því að sigra þriðju hrinuna 26-28 og tryggði sér svo sigur í leiknum með því að klára fjórðu hrinuna 24-26. Af þessum tölum er auðvelt að sjá að sigurinn hefði getað fallið hvoru megin sem er, en Lugano stendur nú vel að vígi. Næsti leikur verður á heimavelli Lugano og fari svo að Galina vinni þann leik verður oddaleikurinn einnig spilaður á heimavelli Lugano. Þær eiga því tvo sénsa á heimavelli en allt getur þó gerst miðað við þennan fyrsta leik.