[sam_zone id=1]

Örebro 0-2 undir í undanúrslitunum

Undanúrslitin í sænsku úrvalsdeildinni eru hafinn og er lið Jónu Guðlaugar, Örebro þar á meðal liða. Þær eru að leika gegn liði Engelholm og nú þegar liðin hafa leikið tvo leiki eru það Engelholm sem hafa haft betur í báðum leikjunum og leiða einvígið 2-0.

Báðir leikirinir hafa spilast á svipaðan hátt, í fyrri leik liðanna sem fór fram á heimavelli Engelholm var það Örebro sem byrjaði betur og vann fyrstu hrinu leiksins 21-25. Engelholm tóku þá við sér og sigruðu næstu þrjár hrinur 25-21, 25-19 og 25-22. Eins og sést á tölunum voru hrinurnar mjög jafnar en Engelholm þó ávallt sterkari á lokasprettinum.

Seinni leikurinn var svo svipaður og sá fyrri en nú var leikið á heimavelli Örebro.
Örebro byrjaði leikinn mjög sterkt og unnu aftur fyrstu hrinu leiksins 25-18. Eftir þetta jafnaðist leikurinn og næsta hrina var gríðarlega spennandi það var þó Engelholm sem hafði betur eftir upphækkun og vann hrinuna 25-27.
Þær unnu síðan einnig síðustu tvær hrinurnar 22-25 og 17-25 og leikinn þar með 3-1.

Jóna Guðlaug var á sínum stað í byrjunarliðinu í báðum leikjunum og hefur hún verið einn besti leikmaður liðsins í þessu einvígi. Í fyrri leiknum skoraði hún 15 stig og í þeim seinni bætti hún við 11 stigum.

Næsti leikur liðanna fer fram á sunnudaginn og þurfa Örebro sigur ef þær vilja halda sér á lífi í þessu einvígi.

Hér má sjá nánari tölfræði úr leikjunum tveimur.