[sam_zone id=1]

Góð endurkoma hjá Aftureldingu í 3-1 sigri á Stjörnunni

Seinni leikur dagsins í undanúrslitum í úrslitakeppni kvenna var viðureign Aftureldingar og Stjörnunnar en sá leikur fór fram í Varmá í Mosfellsbæ.

Stjarnan byrjaði leikinn gífurlega vel og vann fyrstu hrinu 25-23 og má segja að Stjörnustelpur hafi klárað hrinuna í uppgjafareitnum en Stjarnan skoraði 8 stig úr uppgjöf í fyrstu hrinu en Afturelding var í bullandi vandræðum með móttökuna. Afturelding kom hinsvegar til baka í annari hrinu og vann hana nokkuð örugglega 25-13 en þar voru það heimastúlkur sem tóku við keflinu í uppgjöfunum og settu Stjörnuna í vandræði. Sigdís Lind Sigurðardóttir var þar öflug og skoraði 4 stig beint úr uppgjöf en með hana í uppgjafareitnum náði Afturelding 8 stiga kafla sem gekk allveg frá Stjörnunni.

Undir miðja þriðju hrinu lentu Stjörnustelpur í miklu áfalli en þá meiddist Rósa Dögg Ægisdóttir uppspilari liðsins og varð að fara af velli. Við það raskaðist leikur liðsins og tapaði Stjarnan þriðju hrinu 25-11. Stjarnan náði sér aldrei á strik í fjórðu hrinu sem Afturelding vann með miklum yfirburðum 25-7 en leikur Stjörnunnar hrundi hægt og rólega eftir sigurinn í fyrstu hrinu.

Mikið áfall fyrir Stjörnuna ef Rósa Dögg hefur lokið leik en liðin mætast aftur á Laugardaginn kl 15:15 á Álftanesi.

Stigahæst í leiknum í dag var Haley Rena Hampton leikmaður Aftureldingar með 15 stig. Stigahæst í liði Stjörnunnar var Erla Rán Eiríksdóttir með 10 stig.