[sam_zone id=1]

KA í úrslit eftir sigur á Aftureldingu

Einvígi KA og Aftureldingar hélt áfram í kvöld þegar spilað var í Mosfellsbæ. Þetta var fjórði leikur liðanna og leiddi KA 2-1.

 

Afturelding byrjaði leikinn mjög vel og náði 10-5 forystu. KA létu það þó ekki hafa mikil áhrif á sig og jöfnuðu í 12-12. Hnífjafnt var út hrinuna og Afturelding var 23-21 yfir eftir hávörn frá Eduardo Herrero. KA náði þó að snúa hrinunni sér í vil og sigraði hana 23-25 eftir að hafa skorað 4 síðustu stigin. Í annarri hrinunni seig lið KA fram úr þegar leið á hrinuna og hafði í raun ekki mikið fyrir sigrinum í henni. Afturelding gerði töluvert af mistökum og norðanmenn gengu á lagið. Þeir sigruðu aðra hrinuna 16-25 og voru þar með komnir í mjög góða stöðu, einni hrinu frá sæti í úrslitaeinvíginu.

Svipaða hluti var að segja um þriðju hrinuna eins og aðra hrinuna en Afturelding var þó ekki jafn langt frá. KA náðu þó góðu forskoti um miðja hrinu og var munurinn 7 stig þegar mest var. KA lauk hrinunni svo sannfærandi með því að sigra hana 19-25. KA eru þar með komnir í úrslitaeinvígið og munu mæta liði HK þar. Stigaskor KA dreifðist ótrúlega vel í leiknum og voru þrír leikmenn með 10 stig, þeir Mason Casner, Quentin Moore og Alexander Arnar Þórisson. Ævarr Freyr Birgisson var þó stigahæstur með 12 stig. Piotr Kempisty var stigahæstur hjá Aftureldingu en hann skoraði einnig 12 stig.

Lið KA hefur nú þegar unnið tvo titla á þessu tímabili og eru nú nálægt þeim þriðja. Þeir urðu deildarmeistarar í febrúar og bikarmeistarar í mars en eiga nú eftir að leika gegn HK um Íslandsmeistaratitilinn. Einvígi þeirra hefst í næstu viku og verður fyrsti leikurinn þann 10. apríl á Akureyri. Sigra þarf þrjá leiki til að tryggja sér titilinn.