[sam_zone id=1]

Flottur leikur þrátt fyrir tap

B landslið Íslands mætti í gær Skotlandi á Pasqua Challenge, en mótið er æfingamót og fer fram á Ítalíu.

Hópurinn samanstendur að mesti leyti af leikmönnum sem hafa ekki spilað áður með A landsliðinu og er mótið því kjörið tækifæri til að sanna sig og vinna sér sæti í A landsliðshóp Íslands.

Þrátt fyrir að liðið sé skipað reynsluminni leikmönnum þegar kemur að A landsliðinu þá stóðu stelpurnar sig frábærlega í gær þegar þær mættu Skotlandi. Skotarnir tóku fyrstu tvær hrinur leiksins 25-19 og 25-21 en íslensku stelpurnar náðu að halda vel í þær í báðum hrinum. Þriðju hrinu tók svo Ísland 25-20 en liðið var að spila gífurlega vel og buðu uppá hörkuleik. Það seig aðeins á stelpurnar í fjórðu hrinu en hana unnu skotarnir 25-18 og unnu því leikinn 3-1.

Stelpurnar geta gengið stoltar frá leiknum en þær spiluðuð heilt yfir mjög flottan leik, góð pressa úr uppgjöfum settu skotana í vandræði en Ísland skoraði alls 11 stig beint úr uppgjöf.

Stigahæstar í íslenska liðinu voru Eldey Hrafnsdóttir og Matthildur Einarsdóttir með 12 stig hvor. Næst á eftir þeim kom Unnur Árnadóttir með 10 stig.

Ísland mætir í dag Pagliare Volley kl 16:30 að íslenskum tíma. Pagliare Volley spilar í 4. deild á Ítalíu en þjálfari liðsins er Francesco Napoletano, aðstoðarþjálfari Íslands.