[sam_zone id=1]

Bæði Lugano og Galina á leið í úrslitakeppnina

Deildarkeppni kvenna í Sviss lauk um helgina og voru bæði Íslendingaliðin, Volley Lugano og VBC Galina, í eldlínunni.

 

Bæði lið léku tvo leiki um helgina og voru í ágætri stöðu fyrir síðustu umferðirnar. Lugano barðist um 6. sæti deildarinnar á meðan að Galina vildi tryggja sér 8. sætið, það síðasta sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Galina, sem Thelma Dögg Grétarsdóttir leikur með, tapaði 3-1 (25-18, 25-12, 23-25, 25-17) fyrir botnliði Cheseaux á laugardag en bætti upp fyrir það með sterkum sigri á VC Kanti, einnig 3-1 (25-22, 22-25, 25-22, 25-22). Þar með endar lið Galina í 8. sæti deildarinnar og mætir stórliði Volero Zurich í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Einvígið verður erfitt verkefni fyrir lið Galina en þær hafa sýnt það á tímabilinu að þær geta veitt stóru liðunum góða keppni.

Volley Lugano, sem að Elísabet Einarsdóttir leikur með, átti leik gegn Edelline Köniz á föstudag. Köniz sigraði hann nokkuð örugglega, 3-0 (25-22, 25-20, 25-22). Þar með gátu Köniz stolið 6. sætinu í lokaumferðinni, einungis tveimur stigum á eftir liði Lugano. Auk þess átti Lugano eftir að leika gegn Volero Zurich og liðið tapaði þeim leik 3-0 (14-25, 15-25, 15-25). Það kom þó ekki að sök því að Edelline Köniz tapaði einnig sínum síðasta leik, gegn ZESAR. Lugano lýkur því keppni í 6. sæti og mætir TS Volley Dudingen í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Dudingen hefur átt sterkt tímabil hingað til og þarf Lugano að taka á stóra sínum í einvíginu.

Úrslitakeppnin hefst næstu helgi en tímasetningar hafa ekki enn verið auglýstar.

(Mynd fengin af Facebook-síðu VBC Galina)