[sam_zone id=1]

Úrslit Kjörísbikarins fara fram í dag

Í dag fer fram einn stærsti blakviðurður ársins, úrslitaleikir Kjörísbikarsins.

Það bíða allir spenntir eftir úrslitum Kjörísbikarsins og nær sú skemmtun hámarki með úrslitaleikjunum. Í ár fara úrslitin fram í Digranesi í Kópavogi og hefur umgjörðin verið frábær. Að margra mati er Digranes framtíðar áfangastaður slíkra leikja en húsið er mun hentugra að mörgu leiti, heldur en Laugardalshöll sem þykir of stór og umfangsmikil.

Í undanúrslitum í gær mættust HK og Stjarnan í fyrsta leik í kvennaflokki. Þar hafði HK betur 3-2 eftir hörkuleik. Í seinni undanúrslitaleik í kvennaflokki mættust svo Þróttur Nes og Afturelding en þar hafði Þróttur Nes töluverða yfirburði, Þróttur Nes sigraði þann leik 3-1.

Í karlaflokki mættust svo KA og Hrunamenn í fyrsta leik, sá leikur náði aldrei neinu flugi en KA vann þann leik með miklum yfirburðum 3-0. Í seinni undanúrslitum karla mættust svo HK og Stjarnan og höfðu HK þar betur 3-0.

Það verða því HK og Þróttur Nes sem mætast í úrslitum kvenna kl 13:30 og HK og KA sem mætast í úrslitum karla kl 15:30.

Þróttur Nes hefur 5 sinnum orðið bikarmeistari og það síðast árið 2011 en þá varð liðið einnig deildarmeistari líkt og í ár. Lið HK hefur einnig 5 sinnum orðið bikarmeistari en síðast urðu HK bikarmeistarar árið 2014 en þá varð liðið bikarmeistari tvö ár í röð.

Karlalið HK hefur 4 sinnum orðið bikarmeistari, síðast árið 2014 en lið KA hefur 7 sinnum orðið bikarmeistari sem er mestur fjöldi þeirra liða sem spila til úrslita í ár.

Það verður því spenanndi að sjá hvort landsbyggðin bæti við titlasafnið í ár eða hvort HK haldi uppi heiðri höfuðborgarsvæðisins og endurtaki leikinn frá því 2013 og 2014 þegar HK vann bæði í karla og kvennaflokki. Síðast þegar tvö landsbyggðarlið urðu bikarmeistarar var árið 2011 og voru það þá einmitt KA og Þróttur Nes og því er spurning hvort liðin endurtaki leikinn í ár.

Eins og fyrr hefur komið fram þá fara úrslitaleikirnir fram í Digranesi en eru einnig í beinni útsendingu á RÚV.