[sam_zone id=1]

Þróttur Neskaupstað er bikarmeistari kvenna árið 2018

Í dag fór fram bikarúrslitaleikur kvenna en þar mættust HK og Þróttur Nes, leikurinn fór fram í Digranesi.

Þróttur Nes byrjaði leikinn af krafti og komst fljótt í 6-2, en í stöðunni 12-7 þá tók Emil Gunnarsson þjálfari HK leikhlé. Þróttur hélt áfram að auka forskotið eftir leikhléið og réði HK illa við sterkar uppgjafir Þróttar. Þróttur gaf hinsvegar aðeins eftir í stöðunni 23-14 en þá fékk HK 4 stig í röð og komst í 23-18. HK hélt áfram að pressa á Þrótt en þrátt fyrir góðan endasprett HK þá hafði Þróttur betur 25-21.

Þróttur kom mun sterkari til leiks í aðra hrinu og héldu áfram góðri pressu í uppgjöfum sem HK réðu illa við, fyrir vikið gekk ekkert í sóknarleik HK en Þróttur var með gífurlega vel stilta hávörn sem HK átti í vandræðum með að komast framhjá. HK tók sinn annað leikhlé í stöðunni 10-5 fyrir Þrótt. HK kom hinsvegar vel til baka eftir góða baráttu og settu Þrótt í töluverð vandræði varnarlega. Þróttur tók leikhlé í stöðunni 15-13. Í stöðunni 18-15 liggur Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir leikmaður Þróttar meidd á vellinum en leikurinn ekki stöðvaður. HK nýtti tækifærið og skoraði stig, ekki við mikla kátínu Þróttar Nes sem vildu láta stöðva leikinn. Ekki kætti það þjálfara Þróttar þegar það fór rangur leikmaður í uppgjöf hjá Þrótti og fyrir vikið fékk HK stig. Þrátt fyrir góðan sprett hjá Þrótti þá var krafturinn meiri hjá HK sem sigraði hrinuna 25-23.

HK var töluvert sterkari aðili í byrjun þriðju hrinu en nú var leiknum snúið við, Þróttur var í vandræðum með öflugar uppgjafir HK og í kjölfarið hrundi sóknarleikur liðsins. HK gekk á lagið og var yfir 10-6 þegar Þróttur tók sitt fyrsta leikhlé. Þróttur hrökk hinsvegar í gang eftir leikhléið og náði að jafna 10-10 og svo aftur 13-13 með öflugri laumu frá Ana Maria Vidal leikmanni Þróttar. HK tók því leikhlé í stöðunni 13-13. Lokakafli hrinunar var æsispennandi og hafði Þróttur að lokum betur 25-21.

Fjórða hrina hélt áfram af sama krafti og þriðja hrina en bæði lið börðust vel og var sóknarleikur liðanna góður. HK náði hinsvegar góðum tökum á hrinunni en Þróttur tók sitt seinna leikhlé í stöðunni 13-6 fyrir HK. Þróttur náði hægt og rólega að saxa á forskotið og tók HK leikhlé í stöðunni 17-12. HK setti hinsvegar allt í botn eftir leikhléið og átti Þróttur Nes engin svör. HK sigraði fjórðu hrinu 25-15 eftir gott smass frá Hjördísi Eiríksdóttur.

Það virtist hinsvegar aðeins eitt lið mæta í oddahrinuna en Þróttur komst í 4-1 þegar HK tók sitt fyrsta leikhlé. Aftur var það móttakan sem var að stríða HK en öflugar uppgjafir Þróttar settu þær í vandræði. Liðin skiptu um vallarhelming í stöðunni 8-3 fyrir Þrótti Nes. Þróttur hélt áfram að pressa og átti HK fá svör við sóknarleik Þróttar. Þróttur fór að lokum með sigur 15-7 og tryggði sér því bikarmeistaratitilinn árið 2018.

Stigahæst í leiknum var Hjördís Eiríksdóttir leikmaður HK með 20 stig. Stigahæst í liði Þróttar var Paula Del Olmo Gomez með 19 stig.