[sam_zone id=1]

Þróttur Nes sigraði Aftureldingu sannfærandi

Seinni undanúrslitaleikur Kjörísbikars kvenna var viðureign Þróttar Nes og Aftureldingar. HK sigraði fyrri leik dagsins og beið sigurvegarans í úrslitum.

 

Deildarmeistarar Þróttar hafa verið sannfærandi í allan vetur og þær hófu leikinn með miklum látum. Lið Þróttar valtaði yfir Aftureldingu í fyrstu hrinunni og átti Afturelding í miklum erfiðleikum alveg frá byrjun. Munurinn fór fljótt yfir 10 stigin og Þróttur vann hrinuna af geysimiklu öryggi, 25-7

Önnur hrinan var svipuð þeirri fyrstu og hafði Þróttur hana í höndum sér allan tímann. Þróttur jók forskot sitt hratt og var munurinn fljótt orðinn 10 stig. Hrinunni lauk með sigri Þróttar, 25-13.

Enn var það sama uppi á teningnum í þriðju hrinu, Þróttarar byrjuðu betur en nú náði Afturelding að halda í við lið Þróttar. Jafnt var í stöðunni 7-7 og Þróttur Nes tók leikhlé þegar Afturelding komst 11-14 yfir. Áfram hélt Afturelding að þjarma að Þrótturum sem tóku sitt seinna leikhlé, 13-18 undir. Afturelding kláraði hrinuna af krafti og sigraði hana 18-25.

Jafnræði var með liðunum í upphafi fjórðu hrinu en Þróttur náði svo 9-5 forskoti eftir fínan kafla. Áfram hélt Þróttur að spila sinn leik og jók forskotið. Þróttur var 16-6 yfir þegar Afturelding tók leikhlé og gerði lokatilraun til að snúa leiknum sér í vil. Það gekk þó ekki og sigraði Þróttur Nes hrinuna 25-8. Þar með sigraði Þróttur leikinn 3-1 og mætir HK í úrslitum á morgun.

Stigahæst í liði Þróttar var Helen Kristín Gunnarsdóttir með 21 stig en Fjóla Rut Svavarsdóttir skoraði 10 stig fyrir Aftureldingu.