[sam_zone id=1]

HK sigraði Stjörnuna 3-2 og spilar til úrslita

HK og Stjarnan mættust í fyrri undanúrslitaleik Kjörísbikars kvenna. Liðin enduðu í 3. og 4. sæti Mizunodeildarinnar svo búist var við hörkuleik.

 

HK byrjuðu betur og skoruðu fyrstu 4 stig leiksins. HK komst 8-2 yfir og Stjarnan átti í erfiðleikum í sóknarleik sínum. Bæði lið voru með sterkar uppgjafir í fyrstu hrinunni og því var nokkuð um sveiflur. Stjarnan komst fljótt aftur inn í leikinn og HK tók leikhlé í stöðunni 12-11, HK í vil. Stjarnan komst yfir í fyrsta sinn í hrinunni í stöðunni 14-15 en síðan kom góður kafli frá HK sem náði 19-16 forystu. Enn snerist hrinan við og Stjarnan komst 19-22 yfir eftir nokkrar langar skorpur. Eftir spennandi lokakafla sigraði Stjarnan hrinuna 22-25 og komst í 0-1 forystu í leiknum.

Stjarnan hóf aðra hrinuna eins og HK hóf þá fyrstu og náði fljótt 4-0 forystu. Stemningin virtist öll vera Stjörnumegin í upphafi hrinunnar og aftur var staðan 2-8, nú Stjörnukonum í vil. Lið HK vaknaði þó til lífsins og minnkaði muninn í 2 stig og Stjarnan tók leikhlé í stöðunni 10-12. Munurinn hélst í 1-3 stigum en HK náðu að jafna leikinn í stöðunni 17-17 og komust svo 21-19 yfir. Þá tók Stjarnan sitt annað leikhlé og vonaðist til að snúa hrinunni við. Það gekk heldur betur og þurfti HK að nýta sitt seinna leikhlé þegar Stjarnan jafnaði 22-22. HK var sterkara á lokakaflanum og kláraði Edda Björk Ásgeirsdóttir hrinuna með stigi beint úr uppgjöf. HK sigraði hrinuna 25-23 og jafnaði leikinn 1-1.

Í þriðju hrinu byrjuðu loks bæði lið af krafti. Mikill kraftur var í sóknarleik beggja liða en ljóst var að spennustigið var orðið hátt þar sem að mistökum fjölgaði hratt. Uppgjafir og sóknir Stjörnunnar voru frábærar um miðja hrinuna og náðu Stjörnukonur 11-16 forystu. Enn önnur sveiflan sá hins vegar til þess að HK kom sér aftur inn í hrinuna í stöðunni 16-17. Stjarnan átti frábæran kafla undir lok hrinunnar og komst 16-24 yfir en HK náði á ótrúlegan hátt að minnka muninn í 23-24. Erla Rán Eiríksdóttir skoraði loksins fyrir Stjörnuna og tryggði þeim 23-25 sigur í hrinunni. Lið Stjörnunnar var þar með komið í bílstjórasætið, 2-1 yfir.

HK komst 6-3 yfir í byrjun fjórðu hrinu en Stjarnan jafnaði leikinn, 9-9. Liðin skiptust á að hafa forystu og var hrinan hnífjöfn alveg frá byrjun. HK náði 21-18 forystu og Stjarnan tók sitt fyrsta leikhlé. Það dugði þó ekki til og HK vann hrinuna 25-20, eftir mikla spennu. Því varð að grípa til oddahrinu. Jafnræði var með liðunum í upphafi hrinunnar en HK hafði 4 stiga forystu í stöðunni 7-3. HK spilaði mun betur í oddahrinunni og sigraði hrinuna sannfærandi, 15-6, og leikinn þar með 3-2. HK fer því í úrslitaleikinn sem fer fram á morgun. Þar mætir liðið annað hvort Þrótti Neskaupstað eða Aftureldingu.

Hjördís Eiríksdóttir skoraði 30 stig fyrir HK og Matthildur Einarsdóttir bætti við 20 stigum. Erla Rán Eiríksdóttir var atkvæðamest í liði Stjörnunnar með 31 stig.