[sam_zone id=1]

Kjörísbikar karla – upphitun: HK – Stjarnan

Dagana 10.-11. mars fer fram úrslitahelgin í Kjörísbikarnum en allir leikirnir fara fram í Digranesi í ár.

Seinasti leikur í undanúrslitum er viðureign HK og Stjörnunar í karla flokki en leikurinn fer fram kl 19:00 á laugardaginn. Við ætlum að fara aðeins yfir liðin tvö, leið þeirra í undanúrslit og þeirra helstu leikmenn.

Leið liðanna í undanúrslit:

HK

HK mætti Hamar í 8 liða úrslitum en HK vann þann leik nokkuð örugglega 3-0 (25-11, 25-14, 25-19). Á milli hrina var svo dregið í undanúrslit og varð þar ljós að HK myndi mæta Stjörnunni í undanúrslitum annað árið í röð.


Stjarnan

Stjarnan mætti Þrótti Nes í 8 liða úrslitum annað árið í röð. Stjarnan gerði sér góða ferð austur og líkt og á síðasta tímabili þá hafði Stjarnan betur, nú 3-1 (20-25, 25-19, 25-22, 25-23). Stigahæsti leikmaður Stjörnunar í leiknum var Valgeir Valgeirsson með 21 stig.

Hættulegustu vopnin:

 

 

HK – Gary House

Það kemur engin annar til greina sem sterkasti leikmaður HK en Bandaríkjamaðurinn Gary House. Gary hefur farið mikinn í leik HK í vetur og er hann þriðji stigahæsti leikmaður Mizunodeildar karla í vetur með 312 stig í 16 leikjum sem gera rúm 20 stig í leik. Þá er Gary lang stigahæsti leikmaður deildarinnar í hávörn er Gary hefur skorað 51 stig úr hávörn, 16 stigum meira en næsti maður.


 

 

Stjarnan – Valgeir Valgeirsson

Valgeir Valgeirsson gekk til liðs við Stjörnuna á miðju tímabili og hefur komið sterkur inn í liðið. Sóknarlega er Valgeiri ætlað að fylla í það skarð sem Michael Pelletier skyldi eftir sig en Valgeir hefur verið sterkasti sóknarmaður Stjörnunar síðan hann gekk til liðs við liðið. Ætli Stjarnan sér í úrslit þá er mikilvægt að Valgeir sé í stuði.

 

Viðtöl við fyrirliða:

 

Lúðvík Már Matthíasson – HK

“Liðið er vel stemmt og tilbúið í leikinn! Við erum búnir að bíða lengi eftir þessum leik og ætlum okkur í úrslit. Við höfum haft ágætis tak á Stjörnumönnum eftir áramót en þeir sýndu frábæran leik á móti Þrótti Neskaupstað og allt getur gerst í bikarnum. Við viljum einnig nýta okkur það að spilað sé í Digranesi, vonandi myndast góð stemning á okkar eigin heimavelli!”

 

Benedikt Baldur Tryggvason – Stjarnan

“Leikurinn á morgun leggst vel í mig enda alltaf gaman að fá að taka þátt í stærsta blakviðburði ársins. Þetta verða jafnframt síðustu keppnisleikir okkar Stjörnumanna á árinu og því kemur ekkert annað til greina en að gefa allt í leikinn á morgunn á móti HK.”

 

Viðureignir liðanna í vetur:

 

23.01.18  HK – Stjarnan, Fagrilundur 3-1 (23-25, 25-22, 25-20, 25-16)
01.02.18 HK – Stjarnan, Fagrilundur 3-1 (22-25, 25-15, 25-17, 26-24)
17.11.17 Stjarnan – HK, Álftanes 3-2 (26-24, 22-25, 37-35, 19-25, 15-10)
17.10.17 Stjarnan – HK, Álftanes 0-3 (15-25, 18-25, 20-25)

 

Hérna má finna facebook viðburð fyrir úrslitahelgina: Úrslitahelgin í Kjörísbikarnum