[sam_zone id=1]

Kjörísbikar karla – upphitun: Hrunamenn – KA

Dagana 10.-11. mars fer fram úrslitahelgin í Kjörísbikarnum en allir leikirnir fara fram í Digranesi í ár.

Leikur nr 3 í undanúrslitum er viðureign Hrunamanna og KA í karla flokki en leikurinn fer fram kl 17:00 á laugardaginn. Við ætlum að fara aðeins yfir liðin tvö, leið þeirra í undanúrslit og þeirra helstu leikmenn.

Hrunamenn

Hrunamenn eru eina liðið í úrslitum sem ekki eru úr Mizunodeildinni, til að gera gott betra þá eru Hrunamenn ekki skráðir í neina deild í deildarkeppni BLÍ í vetur og teljast því sem utandeildarlið! Fyrir þær sakir þá fóru Hrunamenn töluvert lengri leið en önnur lið í úrslitahelgina. Hrunamenn byrjuðu leik í 1.umferð þar sem þeir mættu Keflavík. Þann leik sigruðu Hrunamenn 3-0 (25-18, 25-13, 25-15). Næst mættu þeir UMFL í 2.umferð en þann leik unnu þeir einnig 3-0 (25-20, 25-20, 25-10). Í 8 liða úrslitum beið þeirra svo leikur gegn Völsungi/Eflingu og gerðu þeir sér lítið fyrir og unnu þann leik einnig 3-0 (25-21, 25-15, 25-17). Hrunamenn hafa því ekki tapað hrinu í bikarkeppninni í ár og verður gaman að sjá hvað þeir gera í undanúrslitum.


KA

KA eru ríkjandi deildarmeistarar og koma því fullir sjálfstraust í úrslitahelgi bikarsins. KA mætti Aftureldingu í 8 liða úrslitum og hafði KA þar betur 3-0 (27-25, 25-15, 25-17). Stigahæstur í leiknum var Quentin Moore með 18 stig.

 

Hættulegustu vopnin:

 

 

 

Hrunamenn – Rúnar Bogason

Lítið er hægt að segja til um styrkleika Hrunamanna í ár en liðið hefur lengi verið eitt sterkasta lið 1.deildar karla. Það eru því margir reyndir og öflugir leikmenn innan liðsins en verður þó fyrirliðinn Rúnar Bogason að teljast sterkastur. Það er gífurlegur skellur fyrir Hrunamenn að einn af þeirra bestu mönnum, Kristján Geir Guðmundsson verður fjarverandi um helgina.

 


KA – Quentin Moore

Bandaríkjamaðurinn Quentin Moore er án efa hættulegasti leikmaður KA. Quentin skoraði 373 stig í 16 deildarleikjum fyrir KA en það gera rúm 23 stig að meðaltali í leik. KA menn búa hinsvegar yfir fjölbreyttustu sóknarlínu allra þeirra liða sem taka þátt í úrslitakeppninni og nokkuð ljóst að uppspilari liðsins Filip Szewczyk hefur úr nægu að velja. Ætli KA sér hinsvegar alla leið þá verða þeir að sjá til þess að Quentin Moore sé í stuði.

 

Viðtöl við fyrirliða:

 

Hrunamenn – Rúnar Bogason

 

Leikurinn við KA leggst vel í mig. Gaman að spila á stærsta blak viðburði ársins,Kjörísbikarnum. Deildarmeistarnir eiga eftir að verða erfiðir andstæðingar


KA – Ævarr Freyr Birgisson

Leikurinn og helgin í heild sinni leggst mjög vel í mig og okkur alla. Liðið er sterkt og vel stemmt og við erum allir sammála um að það sé ekkert í boði í vetur nema að taka þrennuna. Við höfum ekkert séð til Hrunamanna spila nema þennan eina leik í 8 liða úrslitunum þannig að við vitum ekki mikið um þá en það verður gaman að takast á við þá.