[sam_zone id=1]

Lugano náði í stig gegn Viteos

Bæði Íslendingaliðin í Sviss léku um helgina í svissnesku úrvalsdeildinni. Bæði lið töpuðu í hörkuleikjum.

 

Thelma Dögg Grétarsdóttir þurfti að hvíla í leik Galina gegn Dudingen þar sem að hún fékk höfuðhögg í síðasta leik. Hún hefur áður fengið höfuðhögg á tímabilinu og því eru engar áhættur teknar. Fjarvera Thelmu er liðinu erfið þar sem að hún er stigahæsti leikmaður liðsins, en Galina náði þó að spila ágætis leik gegn Dudingen, sem sigraði leikinn þó 3-1, án mikilla vandræða. Í annarri hrinunni, sem Galina vann, spilaði liðið vel og sigraði hrinuna 18-25. Hinar hrinurnar sigraði Dudingen sannfærandi og tryggði sér öll 3 stigin.

Elísabet Einarsdóttir var hins vegar með sínu liði, Lugano, í leik gegn Viteos á sunnudag. Viteos var í fjórða sæti fyrir leikinn á meðan að Lugano sat í 6. sætinu. Lið Lugano hefur æft af miklum krafti alla vikuna og því var tími til kominn að uppskera eftir erfiðið. Þær sýndu góða spilamennsku í fyrstu hrinunni og sigruðu hana mjög örugglega, 19-25. Í fyrstu hrinunni varð liðið þó fyrir því óláni að meiðast á hné og þurfti að hvíla það sem eftir lifði leiks. Ábyrgðin lenti þá á ungum og efnilegum kantsmassara af bekk liðsins sem leysti stöðuna með prýði og var í lok leiks valin MVP.

Önnur og þriðja hrina spiluðust með svipuðum hætti þar sem að Lugano átti í miklum erfiðleikum. Viteos sigraði hrinurnar 25-21 og 25-17 og var þar með komið í bílstjórasætið. Fjórða hrinan var hnífjöfn og var það sérstaklega góður varnarleikur Lugano sem tryggði þeim 20-25 sigur í hrinunni. Leikurinn fór þar með í oddahrinu sem Viteos sigraði 15-10. Erfitt fyrir Lugano að kyngja tapinu en engu að síður mikilvægt að ná í stig úr leiknum. Liðið er í miklum vandræðum með meiðsli í hópnum og reynir nú eftir bestu getu að gera hópinn til fyrir síðustu leiki deildarinnar sem fara fram næstu helgi.

Galina og Lugano eiga bæði tvo leiki eftir og spila þá báða næstu helgi. Galina mætir botnliði Cheseaux á laugardag og VC Kanti á sunnudag en Lugano mætir Edelline Köniz á föstudag og stórliði Volero Zurich á sunnudag. Galina nægir eitt stig til að tryggja sig inn í úrslitakeppnina en liðið situr nú í 8. sæti deildarinnar, því síðasta sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppni. Einnig verður að teljast ólíklegt að liðið nái að lyfta sér upp í 7. sætið. Lugano er í svipuðum málum en liðið þarf 2 stig til að tryggja sér 6. sætið en getur, verði önnur úrslit óhagstæð, lokið keppni í 7. sæti. Liðið á þó ekki möguleika á 5. sætinu lengur.