[sam_zone id=1]

HK sigraði KA í lokaleik deildarkeppninnar

HK tók á móti KA í Mizunodeild kvenna í gærkvöldi. Leikurinn var sá síðasti í deildarkeppninni þetta tímabilið.

 

Fyrsta hrina var hnífjöfn til að byrja með og skiptust liðin á stigum þangað til staðan var 7-7. Þá skoraði HK 4 stig í röð og hélt því forskoti alla hrinuna. Enn jókst munurinn svo á lokametrum hrinunnar og HK sigraði hana 25-17. KA byrjaði aðra hrinuna af miklum krafti og komst strax í 1-5 forystu. HK vann þó upp muninn á stuttum tíma og var skrefi á undan allt fram undir miðja hrinu. Þá sigu HK aftur fram úr og sigruðu aðra hrinuna einnig örugglega, 25-20.

KA gafst ekki upp og enn var leikurinn jafn í þriðju hrinunni. Í stöðunni 15-15 átti HK í erfiðleikum með að skora á meðan að KA raðaði inn stigunum og náði 4 stiga forystu. KA voru svo í góðri stöðu, 20-22 yfir, en náðu ekki að fylgja þessum góða kafla eftir. HK skoraði 5 af síðustu 6 stigum hrinunnar og stal henni 25-23. Þar með sigraði HK leikinn 3-0.

Hjördís Eiríksdóttir skoraði 13 stig fyrir HK en Jensen Barton var sterk í liði KA og skoraði 14 stig. Eins og áður sagði lauk deildakeppninni í gær og því bikarkeppnin og úrslitakeppnin framundan. Undanúrslit og úrslit í bikarnum fara fram í Digranesi næstu helgi og úrslitakeppnin hefst í vikunni eftir það. HK leikur gegn Stjörnunni í bikarnum en KA féll út gegn núverandi bikarmeisturum í Aftureldingu. KA endaði í botnsæti deildarinnar en mætir Þrótti Reykjavík í umspili í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Vinna þarf tvo leiki og fer sá fyrsti fram á heimavelli Þróttar Reykjavíkur. HK mætir svo liði Völsungs í úrslitakeppninni, en fyrsti leikur fer fram í Kópavogi 20. mars.

(Mynd fengin frá A&R Photos)