[sam_zone id=1]

Þróttur Nes sigraði Þrótt Reykjavík öðru sinni

Þróttur Reykjavík fékk Þrótt frá Neskaupstað aftur í heimsókn í dag, en leikið var í íþróttahúsi Kennaraháskóla Íslands. Þróttur Nes sigraði fyrri leikinn 3-1 í gær.

 

Þróttur Nes hafði nú þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn enda liðið griðarsterkt og hópurinn með góða breidd. Þær höfðu því efni á að hvíla tvo sterka leikmenn sína en þær Heiða Elísabet Gunnarsdóttir og Paula Gomez fengu frí í leiknum í dag. Gestirnir frá Neskaupstað hófu leikinn mun betur og voru skrefinu á undan í fyrstu hrinu. Þrátt fyrir að komast 10-18 yfir hleyptu þær heimakonum aftur inn í leikinn og staðan var fljótt orðin 18-20. Nær komust þær þó ekki og Þróttur Nes sigraði hrinuna 21-25. Áfram héldu gestirnir að þjarma að Þrótti Reykjavík og sigraði Þróttur Nes hrinuna 19-25.

Þriðja hrinan var töluvert jafnari og þrátt fyrir að gestirnir úr Neskaupstað hefðu alltaf örlítið forskot voru heimakonur aldrei langt undan. Þróttur úr Reykjavík skoraði svo síðustu 4 stig hrinunnar og sigraði hana 25-23. Þróttur Reykjavík byrjaði fjórðu hrinuna einnig vel og leit allt út fyrir að þær gætu tryggt sér oddahrinu og ógnað 10 leikja sigurhrinu gestanna. Þetta tóku gestirnir frá Neskaupstað þó ekki í mál og lokuðu á heimakonur í stöðunni 18-18. Gestirnir sigruðu hrinuna 19-25 eftir frábæran lokakafla og tryggðu sér þar með öll þrjú stigin.

Eldey Hrafnsdóttir var stigahæst í liði Þróttar Reykjavíkur með 16 stig en Brynja Guðjónsdóttir bætti við 14 stigum. Helena Kristín Gunnarsdóttir var atkvæðamikil í liði Þróttar Nes með 25 stig og Ana Maria Vidal Bouza skoraði 12 stig. Þar með hafa bæði lið lokið keppni í deildinni þetta tímabilið en nú tekur úrslitakeppnin við. Þróttur Reykjavík mætir KA í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og verður fyrsti leikur einvígisins 13. mars næstkomandi. Þróttur Nes er hins vegar í langri pásu þangað til þriðja umferð úrslitakeppninnar hefst. Þær munu ekki spila fyrr en í byrjun apríl og því verðugt verkefni fyrir þær að halda sér í því frábæra formi sem liðið hefur verið í á tímabilinu.

(Mynd fengin af Facebook-síðu Blakdeildar Þróttar Nes)