[sam_zone id=1]

Calais með öruggan heimasigur

Calais mætti í dag liði Reims á heimvelli og vann nokkuð öruggan 3-0 sigur.

Það voru hinsvegar gestirnir sem byrjuðu leikinn betur og virtist sem heimamenn væru ekki alveg tilbúnir í leikinn. Leiddu gestirnir 4-7 í byrjun hrinunnar. Eftir það var hinsvegar ekki aftur snúið, Calais gáfu í í uppgjöfum og stilltu betur hjá sér blokkina og þá var ekki að spyrja að leikslokum. Heimamenn voru með öll völd á vellinum og unnu hrinuna örugglega 25-13.

Önnur hrinan var svipuð þeirri fyrstu nema nú voru það Calais sem náðu nokkura stiga forystu í byrjun hrinunnar. Reims kom þó til baka og voru búnir að jafna leikinn í stöðunni 7-7. Þá stungu hinsvegar leikmenn Calais af og skoraði Reims einungis 6 stig til viðbótar í hrinunni. Önnur hrinan endaði einnig 25-13.

Þriðja hrinan var sú jafnasta en Calais hafði ávallt yfirhöndina. Þeir komust fljótt nokkrum stigum yfir í byrjun þökk sé góðum uppgjöfum frá Hafsteini Valdimarssyni en hann skoraði meðal annars þrjú stig í röð beint úr uppgjöf í byrjun hrinunnar. Calais héldu forystunni ávallt í 5-6 stigum og unnu að lokum fimm stiga sigur 25-20 og þar með leikinn 3-0.

Hafsteinn Valdimarsson lék að vanda allan leikinn fyrir Calais og stóð hann sig vel þó aðalega í hávörn og uppgjöfum þar sem hann skoraði ófá stig í dag.

Eftir leikinn er Calais sem fyrr á toppi deildarinnar nú með 8 stiga forystu á næstu lið eftir tap hjá Maiziere Metz. Cambrai eiga þó enn eftir að spila og geta minnkað muninn niður í 5 stig. Næsti leikur liðsins er einmitt gegn liði Maiziere Metz og getur lið Calais farið langt með að tryggja sæti sitt í næstu deild vinni þeir þann leik.

Hér má sjá stöðu og önnur úrslit í deildinni.