[sam_zone id=1]

Vital Heynen ráðinn þjálfari karlalandsliðs Póllands

Nú í vikunni gekk pólska blaksambandið frá ráðningu Vital Heynen sem aðalþjálfara karlalandsliðs Póllands. Heynen hefur undanfarið þjálfað landslið Belgíu með góðum árangri.

 

Hinn 48 ára gamli Vital Heynen hóf feril sinn sem þjálfari hjá stórliði Noliko Maaseik í Belgíu og vann með þeim fjölmarga titla á árunum 2006-2012. Árið 2012 samdi hann svo við þýska blaksambandið og var aðalþjálfari karlalandsliðs Þýskalands til ársins 2016. Síðasta tímabil þjálfaði hann karlalið Belgíu og hafa þeir tekið miklum framförum á síðustu mánuðum. Það verður því mjög spennandi að sjá hvort Pólverjar berjist um titla næstu árin, en eftir Heimsmeistaratitil þeirra 2014 hefur tiltölulega lítið gengið hjá liðinu. Miklar væntingar eru ávallt gerðar til pólskra liða og þá sérstaklega til landsliðanna. Heynen mun halda áfram að þjálfa lið VfB Friedrichshafen.

Auk afreka sem félagslið hans hafa náð hefur hann einnig unnið til verðlauna með landsliðum sínum. Hann vann til bronsverðlauna á HM 2014 þegar Þýskaland sigraði Frakkland í spennandi leik um 3. sætið. Heynen kann því að vinna titla og ætlar sér eflaust stóra hluti með liðið á HM í haust. Ítalía og Búlgaría munu halda mótið í sameiningu og er stefna pólska liðsins án efa sett á verðlaunapallinn.