[sam_zone id=1]

Þrír leikir hjá Íslendingunum í Sviss um helgina

Um helgina fór fram heil umferð í svissnesku úrvalsdeildinni, auk þess að undanúrslit bikarkeppninnar var spiluð í gær. Íslendingaliðin Volley Lugano og VBC Galina voru bæði í eldlínunni.

 

Thelma Dögg Grétarsdóttir (Galina) og Elísabet Einarsdóttir (Lugano) léku báðar deildarleiki með liðum sínum á laugardag. Galina mætti geysisterku liði Volero en Lugano mætti ZESAR VFM. Galina átti erfitt uppdráttar gegn toppliði Volero, en lið Volero hefur verið í sérflokki í deildinni síðustu vikur. Lið Volero vann leikinn mjög örugglega, 3-0 (12-25, 18-25, 15-25). Lugano mætti liði ZESAR og náði í góðan 3-0 sigur (25-21, 25-18, 25-23). Bæði Galina og Lugano eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni, en bæði lið eru í fínni stöðu. Alls komast átta lið áfram í úrslitakeppnina og eins og staðan er í dag eru bæði lið á leið í úrslitakeppnina, nokkrum stigum á undan liðinu í 9. sætinu.

Volley Lugano lék einnig bikarleik á sunnudag, einmitt gegn liði Volero. Leikurinn var liður í undanúrslitum svissnesku bikarkepnninnar og má lið Lugano því vera sátt við sína frammistöðu í keppninni. Eins og Galina þá áttu Lugano erfitt með sterkt lið Volero, sem sigraði leikinn sannfærandi, 3-0 (25-16, 25-12, 25-16).

Næstu leikir hjá liðunum eru næsta laugardag, þann 17. febrúar. Þá mætir Lugano liði Dudingen en Galina á að mæta Edelline Köniz. Þeim leik verður þó líklega frestað og á eftir að finna nýja dagsetningu fyrir hann.