[sam_zone id=1]

KA með annan sigur gegn Stjörnunni

KA og Stjarnan mættust öðru sinni í Mizunodeild karla í dag en KA vann fyrri leik liðanna 3-0.

Leikurinn hófst mjög spennandi þar sem liðin skiptust á að skora og hvorugt liðið gat slitið sig langt frá hinu. Hrinunni lauk ekki fyrr en eftir upphækkun þar sem Stjarnan hafði betur, 28-30.

KA menn voru greinilega ekki sáttir við þessi úrslit þar sem þeir völtuðu yfir Stjörnuna í annarri hrinu. KA menn spiluðu vel í hávörn og sókn á meðan Stjarnan gerði fjölda mistaka og vann KA hrinuna 25-13.

Þriðja og fjórða hrina spiluðust mjög svipað þar sem KA komust fljótt í gott forskot. Stjarnan náði aðeins að minnka bilið en það var um seinan og KA unnu þær 25-18 og 25-19 og leikinn þar með 3-1.

Því miður voru vandræði með tölvurnar í KA heimilinu og er tölfræðin því ekki áreiðanleg.

Eftir leikinn er KA með 8 stiga forskot á HK í efsta sæti Mizunodeildarinnar í einum fleiri leik. Stjarnan er í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig eftir 15 leiki, 5 stigum á eftir Þrótti Nes. HK og Þróttur Nes eru að spila á Neskaupstað þegar þessi grein er skrifuð og gætu úrslit Mizunodeildar karla ráðist á þeim leik.