[sam_zone id=1]

HK heldur lífi í titilbaráttunni

Þróttur Nes og HK mættust að öðru sinni í dag í Mizunodeild karla en leikið var í íþróttahúsinu í Neskaupstað.

Þróttur hafði betur í gær 3-1 og settu HK menn í vandræði í baráttunni um deildarmeistaratitilinn. KA hafði betur gegn Stjörnunni í báðum sínum leikjum um helgina og urðu því að treysta á að HK myndi misstíga sig aftur til þess að tryggja sér titilinn.

HK byrjaði leikinn hinsvegar vel og vann fyrstu hrinu 26-24 eftir hörkubaráttu. Hrinan var hnífjöfn og skiptust liðin lengst af á stigum. Bæði lið tóku þó góðar skorpur en alltaf jafnaðist leikurinn út. HK hafði hinsvegar að lokum betur eftir að stigahæsti leikmaður leiksins, Mateo Castrillo sló boltan út.

Þróttur Nes hafði töluverða yfirburði í byrjun annarrar hrinu en góð barátta HK hélt þeim inni í hrinunni. Þróttur hafði hinsvegar betur að lokum 25-20 eftir sóknarmistök HK. Sömu sögu var að segja í þriðju hrinu en Þróttur hafði þar töluverða yfirburði. Þróttur sigraði þriðju hrinu 25-22 og voru því komnir í góða stöðu.

HK þurfti að rífa sinn leik í gang og byrjuðu þeir fjórðu hrinu vel. Þróttur Nes gerði töluvert af sóknarmistökum og nýttu gestirnir sér það. Þróttur náði hinsvegar að jafna leikinn 21-21 og úr varð hörkuspennandi lokakafli í hrinunni. HK hafði betur 27-25.

Leikurinn fór því í oddahrinu og varð hún hnífjöfn. Mikill hiti var í leiknum og voru bæði lið staðráðinn í því að ná í sigur. HK tryggði sér sigur í oddahrinu 15-13 og heldur því titilvonum sínum lifandi en HK þarf 6 stig þegar þeir mæta KA um næstu helgi.

Stigahæstur í leiknum var Mateo Castrillo leikmaður Þróttar Nes með 35 stig. Næstur á eftir honum kom Gary House leikmaður HK með 29 stig.