[sam_zone id=1]

Þróttur Nes skrefi nær deildarmeistaratitlinum eftir 3-0 sigur á Aftureldingu

Þróttur Nes var rétt í þessu að sigra Aftureldingu 3-0 (25-11, 34-32, 25-18) í toppslagnum í Mizunodeildinni. Leikurinn var mjög sveiflukenndur eins og sést á stigaskorinu en þriðja hrinan var 36 mínútur á lengd.

Þróttur Nes komu mjög ákveðnar til leiks í fyrstu hrinu og náðu strax góðu forskoti. Afturelding tók leikhlé í stöðunni 10-4 fyrir Þrótt og svo aftur í stöðunni 14-6. Lokatölur í hrinunni voru 25-11 en aðeins þrír leikmenn komust á blað úr liði Aftureldingar.

Önnur hrina fór frekar jafnt að stað og var jafnt í stöðunni 8-8. Þróttur Nes voru fljótar að vinna sér inn öflugt forskot og komust þær í stöðuna 20-12. Það leit því allt út fyrir svipaða niðurstöðu eins og í fyrstu hrinu en þá hrökk lið Aftureldingar í gang. Afturelding sýndi frábæran karakter í hrinunni og með ótrúlegum hætti náðu þær að jafna leikinn í stöðunni 24-24. Það þurfti margfalda upphækkun til þess að klára hrinuna en lokaniðurstaða í hrinunni var 34-32, Þrótti í vil. Áhugavert var að lið Þróttar Nes skoraði ekki eitt einasta stig sjálfar eftir 29-30 en Afturelding gaf þeim fimm stig með mistökum sínum.

Allt annað var að sjá til liðs Aftureldingar í þriðju hrinu og greinilegt var að þær ætluðu ekki að gefa Þrótti neitt eftir í leiknum. Afturelding byrjaði hrinuna mjög vel og komust þær í stöðuna 4-10. Þær héldu forskotinu mestmegnið af hrinunni og voru þær enn með yfirhöndina í stöðunni 11-17. Þróttur Nes sýndi þá af hverju þær eru á toppnum á deildinni og skoruðu þær tólf stig í röð! Þróttur Nes var þá komið í stöðuna 23-17. Þróttur Nes kláraði síðan hrinuna 25-18 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæst í leiknum var Paula Del Olmo Gomez, leikmaður Þróttar Nes, með 15 stig. Paula skoraði 10 stig úr sókn og var hún einnig með fjórar hávarnir. Systurnar Heiða Elísabet og Helena Kristín Gunnarsdætur, skoruðu báðar 13 stig fyrir Þrótt. Stigahæst í liði Aftureldingar var Fjóla Rut Svavarsdóttir með 11 stig, þar af 8 úr sókn, eitt úr hávörn og tvö úr uppgjöf. Næst stigahæst í liði Aftureldingar var Haley Rena Hampton með 10 stig, þar af 7 úr sókn, tvö úr hávörn, og eitt úr uppgjöf.

Með sigri í leiknum er Þróttur Nes skrefi nær deildarmeistaratitlinum. Þróttur Nes á þrjá leiki eftir í deildinni, einn á móti Aftureldingu og tvo á móti Þrótt Reykjavík. Þróttur Nes og Afturelding mætast næst þann 16. febrúar að Varmá í Mosfellsbæ. Með 3-0 eða 3-1 sigri i þeim leik, þá nær Þróttur Nes að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.