[sam_zone id=1]

Þróttur Nes sigraði HK á heimavelli

Þróttarar spiluðu gegn HK á heimavelli sínum í Mizunodeild karla í dag. Liðin voru fyrir leikinn í 2. og 3. sæti deildarinnar og því búist við spennandi leik.

 

Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur og náðu strax nokkurra stiga forskoti. Uppgjafir og móttaka Þróttar voru mun betri en hjá HK og litu Þróttarar út fyrir að ætla að valta yfir HK-inga í fyrstu hrinunni. Þeir komust 23-15 yfir en þá slógu HK-ingar aðeins frá sér og náðu að minnka muninn í 24-22. Nær komust þeir þó ekki og Þróttur vann fyrstu hrinuna 25-22. Algjör viðsnúningur var í annarri hrinu þar sem að HK setti mikla pressu á Þróttara sem gerðu mikið af mistökum. HK sigraði aðra hrinu örugglega, 14-25, og jafnaði leikinn í 1-1.

Þriðja hrina var æsispennandi og hafði HK forystu til að byrja með. Þróttarar jöfnuðu leikinn í stöðunni 13-13 og höfðu örlítið forskot út alla hrinuna. Þeir náðu svo að slíta sig frá HK í lok hrinunnar og unnu hana 25-21. Sú fjórða var einnig frábær skemmtun og áttu bæði lið góðar skorpur. Þrátt fyrir að Þróttur hefði 1-2 stiga forskot mestan hluta hrinunnar voru HK aldrei langt undan. HK náði svo að komast yfir í lok hrinunnar og komst í mjög vænlega stöðu, 21-23 yfir. Þá skelltu Þróttarar í lás og þeir sigruðu hrinuna 26-24 eftir mikla spennu. Þeir unnu leikinn því 3-1 og tryggðu sér öll 3 stigin.

Eins og oft áður var Miguel Mateo Castrillo langstigahæstur hjá Þrótturum en hann skoraði 36 stig í dag. Hjá HK var Gary House atkvæðamestur með 23 stig. Liðin leika aftur kl. 15 á morgun og verður það síðasti deildarleikur Þróttara á þessu tímabili. HK á hins vegar eftir 2 leiki til viðbótar gegn KA, sem spilaðir verða á Akureyri næstu helgi.