[sam_zone id=1]

Örebro með auðveldan heimasigur

Örebro mætti í dag botnliði Degerfoss í sænsku úrvalsdeildinni í blaki. Örebro var fyrir leikinn í þriðja sæti deildarinnar en gat með sigri komist upp í annað sæti deildarinnar, allavega fram á morgundaginn. Andstæðingarnir voru hinsvegar eins og áður segir í neðsta sæti deildarinnar og höfðu ekki unnið leik í deildinni til þessa.

Fyrsta hrinan byrjaði vel hjá Örebro og þær komust í 5-1 forystu í byrjun hrinunnar. Leikurinn jafnaðist aðeins eftir þetta og skiptust liðin á að skora stig. Þegar leið á hrinuna komst Degerfoss þó betur inn í hrinuna og náðu að minnka muninn í tvo stig í stöðunni 15-13. Örebro gáfu þá aftur í og juku forskot sitt á ný. Þær sigldu hrinunni síðan nokkuð örugglega heim og unnu 25-19 sigur.

Degerfoss skoraði fyrsta stig annarar hrinu en það var í eina skiptið sem þær leiddu í þessari hrinu. Örebro tóku strax öll völd á vellinum og áttu leikmenn Degerfoss í stökustu vandræðum með uppgjafir Örebro en þær skoruðu í heildina 12 stig beint úr uppgjöf.
Hrinan var aldrei spennandi og vann Örebro hana 25-13.

Þriðja hrinan var síðan einungis formsatriði fyrir Örebro en þær unnu hana 25-10 og þar með leikinn 3-0.

Örebro gaf nokkrum leikmönnum sem ekki höfðu spilað mikið í vetur tækifæri, en þeirra á meðal var Margie Giordano, hún nýtti heldur betur tækifærið í dag og var stigahæst á vellinum með 14 stig.
Jóna Guðlaug var hvíld alveg í leiknum í dag en hún var ekki einu sinni á skýrslu og gat leyft sér að njóta úr stúkunni á meðan liðsfélagar hennar sáu um að vinna leikinn í dag.

Örebro fór því eins og fyrr segir upp í annað sæti deildarinnar og er með 53 stig eins og Engelholm sem er í efsta sætinu á betra hrinuhlutfalli. Hylte/Halmstad eru síðan í þriðja sæti með 52 stig, en bæði þessi lið eiga þó leik til góða á Örebro.

Nánari upplýsingar má finna hér.