[sam_zone id=1]

KA menn skrefi nær deildarmeistaratitlinum

KA tóku í dag á móti Stjörnunni í Mizunodeild karla á Akureyri.

KA eru í harðri baráttu við HK um deildarmeistaratitilinn og var leikurinn því gríðarlega mikilvægur fyrir þá á meðan Stjarnan er að berjast við Þrótt Nes um þriðja sætið.

Leikurinn var mjög spennandi í upphafi og voru liðin jöfn alla fyrstu hrinuna. Í stöðunni 11-13 fyrir Stjörnunni tóku KA menn 4 stig í röð og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum. Stjörnumenn komu hins vegar til baka með 3 stig í röð og leiddu 15-16. Þeir gerðu sig hins vegar seka um fjölda mistaka undir lok hrinunnar og unnu KA hana 25-22.

Önnur hrina hófst líkt og sú fyrsta þar sem liðin voru jöfn framan af. KA menn sigu fram úr rétt fyrir miðja hrinu og komust í gott forskot. Þeir urðu hins vegar fyrir miklu áfalli í stöðunni 16-12 þegar Sigþór Helgason lenti í samstuði við Benedikt Baldur Tryggvason undir netinu og varð að fara af velli með snúinn ökkla. Í hans stað kom Alexander Arnar Þórisson, sem er sjálfur að jafna sig eftir að hafa snúið sig á ökkla fyrir nokkrum vikum. Það virtist ekki hafa mikil áhrif á KA þar sem Quentin Moore fór mikinn í uppgjöfum. Hrinunni lauk með 25-15 sigri KA og þeir því komnir 2-0 yfir.

KA hófu þriðju hrinuna af krafti og komust fljótt þremur stigum yfir. Stjarnan skoraði þá fjögur stig í röð og komst yfir. KA komust aftur þremur stigum yfir í stöðunni 16-13 og lauk hrinunni með minnsta mun, 25-23 og leiknum því 3-0 fyrir KA.

Stigahæsti leikmaður KA var eins og svo oft áður Quentin Moore með 20 stig og hjá Stjörnunni skoraði Valgeir Valgeirsson 16 stig.

Eftir leikinn í dag er KA með 5 stiga forskot á HK eftir jafn marga leiki og er staðan því góð fyrir þá þar sem fáir leikir eru eftir af Mizunodeildinni. Stjarnan er í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig eftir 14 leiki, 5 stigum á eftir Þrótti Nes en á einn leik til góða.