[sam_zone id=1]

Handahófskenndar frestanir leikja

Blaksamband Íslands ákvað í dag að fresta 3 leikjum í deildarkeppni en halda óbreyttum leiktíma á 9 öðrum leikjum sem áttu að fara fram laugardag og sunnudag víðsvegar um landið.

Í dag fóru fram 4 leikir í efstu deildum karla og kvenna, KA tók á móti Stjörnunni á Akureyri í Mizunodeild karla og Þróttur Nes tók á móti HK í Neskaupstað, þá tók Völsungur á móti Stjörnunni í Mizunodeild kvenna og Afturelding heimsótti Þrótt Nes austur í Neskaupstað.

Kvennalið Stjörnunnar og Aftureldingar ferðuðust á föstudag en kvennalið Stjörnunnar lék á föstudagskvöld á Húsavík. Karlalið Stjörnunnar lagði af stað á föstudag með þau skilaboð að leikirnir þyrftu að fara fram og því tóku þeir enga sénsa. Þá héldu HK af stað austur snemma í morgun þrátt fyrir að leiðin milli Egilsstaða og Neskaupstaðar væri að hluta til ófær og lokuð, farandi út í þá óvissu hvort þeir kæmust alla leið, einnig með þau skilaboð og leikirnir þyrftu að fara fram annars myndu þeir tapast.

Á morgun fara svo fram tveir leikir þegar KA og Stjarnan mætast að öðru sinni á Akureyri og þá mætast einnig Þróttur Nes og HK. Einn leikur átti hinsvegar að fara fram í Mizunodeild kvenna þegar HK átti að fá KA í heimsókn, þeim leik hefur hinsvegar verið frestað vegna veðurs þrátt fyrir að fært hafi verið í morgun og flug á áætlun milli Akureyrar og Reykjavíkur á morgun.

Það verða að teljast furðuleg vinnubrögð af hendi Blaksambandins þegar kemur að frestunum leikja vegna veðurs en veðurstofa var búin að gefa það út fyrir helgi að það væri ekkert ferðaveður um landið. Körfuboltasamband Íslands tók þá ákvörðun að fresta öllum deildarleikjum í dag vegna veðurs og voru þar engir sénsar teknir með því að senda lið út í óvissu. Lið eiga ekki að hafa undir í þessari umræðu og ættu ávalt að njóta vafans þegar Vegagerð eða Veðurstofa hafa gefið út slíkar viðvaranir.

Í reglum BLÍ vegna frestunum leikja er í gildi eftirfarandi reglugerð: Leikur fellur af mótaskrá ef um lokaðar leiðir er að ræða, þannig að lið kemst ekki til leiks vegna veðurs, ófærðar eða annarra ófyrirsjáanlegra ástæðna, nema ákvæði 6. gr. sé beitt. Þegar um flug er að ræða skal miðað við flugleið samdægurs. Sama gildir um bílveg eða sjóveg, þegar slíkri ferð má ljúka m.t.t. árstíma á augljósum tíma. Flugleið telst fær ef flogið er áætlunarflug á þeim tíma sem lið hyggst fara á og ekki er um frídag að ræða, annars telst leið fær ef flogið er áætlunarflug á leikdag. Lið skulu panta far með að minnsta kosti 14 daga fyrirvara, sé þess kostur

Það getur verið gífurlega kostnaðarsamt fyrir lið að halda af stað í leiki en komast ekki á leiðarenda, sitji lið strand í öðru bæjarfélagi getur það kostað gífurlegan aukakostnað vegna gistingar og ferðamáta. Það er því klárt mál að betur þarf að fara að hlutunum þegar veður á í hlut og þarf klárlega að endurskoða umrædda reglugerð og vinnubrögð þegar kemur að svona málum.

Sjá einnig: Öllum körfuknattleik frestað um helgina vegna veðurs